Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 34
Ástráður Eysteinsson
þótta, og líkt og Abraham var reiðubúinn að fórna syni sínum, þannig hlýðir
sonurinn í sögunni í blindni valdboðinu að ofan, allt eins þótt ekki sé ljóst
hvaða hlutverki sjálfsfórn hans gegni. Þótt þetta geti jafnframt og ekki síður
verið „blindni“ lesandans, sem ekki þekkir alla málavöxtu, þá eru hin æðri
boð handan vanabundins skilnings og því kannski tengd þeim æðri
máttarvöldum sem birtast í skáldsögunum Höllinni og Réttarhöldunum. Max
Brod er þeirrar skoðunar að höllin í samnefndri sögu og dómstóllinn í
Réttarhöldunum tákni andstæð birtingarform guðdómsins að kabbalískum
skilningi, höllin sé tákn náðarinnar en dómstóllinn fulltrúi réttar og refsingar.13
Verkin leiða þó tæpast svo þægilega tvískiptingu í Ijós. I báðum skáldsögunum
er hið æðra vald hulið söguhetjunni K., og í báðum tilvikum sækist hann mjög
eftir að komast í tæri við valdið. Hann sættir sig einfaldlega ekki við að vera
því undirgefinn og er að því leyti ólíkur syninum í „Dómnum“ sem í lokin
tekur einskonar „trúarstökk“ og sýnir lögmáli föðurins skilyrðislausa hlýðni.
Þótt það gerist með sjálfsvígi, felst kannski einmitt í því hin umsvifalausa trú
á að boðinu fylgi fæðing eða frjóvgun. Um lokalínu sögunnar — „Á þessu
augnabliki var beinlínis endalaus umferð yfir brúna“ — sagði Kafka að honum
hefði verið hugsað til öflugs sáðláts er hann skrifaði hana.14 Það er að segja,
reynslunni líkir hann við þesskonar líkamlegt algleymi sem eins og sterk
trúarreynsla fer handan röklegrar hugsunar.
V
Ef heyra má í „Dómnum“ nöturlegan enduróm af sjálfsfórn Jesú, þá má líta
á Jósef K. í Réttarhöldunum sem ámóta nöturlegan en jafnframt írónískan
kristgerving. Sagan gæti verið hugsuð sem útlegging á píslarsögu Jesú; hún
hefst á handtöku hins réttláta, saklausa manns, líklega með þekktustu
upphafsorðum nokkurrar skáldsögu á þessari öld:
Einhver hlaut að hafa rægt Jósef K. því að morgun einn var hann handtekinn án
þess að hafa gert nokkuð af sér.15
Einstök atriði önnur ýta undir túlkun í anda Jesúmynda og tryggja að vart er
um tilviljunarkenndar hliðstæður að ræða, til dæmis þegar í ljós kemur að
gæslumenn dómstólsins fái í sinn hlut fatnað sakbornings rétt eins og hermenn
skipta með sér klæðnaði Jesú. En í grundvallaratriðum er Jósef K. andhverfa
13 Max Brod: „Nachwort zur ersten Ausgabe", í Franz Kafka: Das Schlofi, Frankfurt am
Main: Fischer Taschenbuch Verlag 1976, s. 349.
14 Max Brod: Úber Franz Kafka (sbr. nmgr. 7), s. 114.
15 Franz Kafka: Réttarhöldin, s. 7.
32