Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Side 50
Björn Björnsson
Þetta merkir í reynd, að starfsvettvangur kirkjunnar er mun breiðari en
menn almennt gera sér grein fyrir. Þótt fagnaðarerindið eigi ætíð brýnast erindi
við einstaklinginn, mannssálina, þá eru lífskjör manna eins og þau ráðast á
hinum veraldlega vettvangi aldrei undanskilin. Kirkjan ber með öðrum orðum
þjóðfélagslega ábyrgð, og til hennar er gerð sú krafa, að þess megi sjá merki
langt út fyrir hið þrönga svið einkalífsins.
En eitt er kenning og annað er famkvæmd. Hvernig mætir kirkjan þeim
kröfum, sem til hennar eru gerðar? Hversu trú er hún þeirri köllun sinni að
vera kirkja Krists? Manni vefst tunga um tönn, þegar svara skal svo stórum
spumingum. En ég lít svo á, að ein leið til að nálgast þær sé umræðuefni mitt
hér og nú, söfnuðurinn og samtíðin. Kirkjan er í innsta eðli sínu söfnuður,
samfélag fólks, sem á sér sameiginlega trú, er hefur mótandi áhrif á lífsviðhorf
þess, gildismat og breytni. En einmitt vegna þess er kirkjan, söfnuðurinn,
bundin samtíðinni, því hún er sú tíð, og engin önnur, sem okkur er gefin til
að bera trúnni á Jesú Krist vitni. Samtíðin setur sviðið, leiktjöldin eru sótt til
hennar, og á leiksviði lífsins er tekist á við samtíðina. Þar er trúin reynd og
fullreynd, hert í eldi þeirrar ögrunar, tækifæra, efasemda, nýrra viðhorfa, þess
lífsvanda, sem trúin mætir á hverri nýrri tíð. Sem kristnir einstaklingar erum
við misjafnlega búin til að mæta þeirri áraun trúarinnar. En sem trúarsamfélag,
söfnuður, lærisveinasamfélag Krists, höfum við stuðning hvert af öðru,
styrkjumst í trúnni, eflum samtakamáttinn. Verðum í senn sem einstaklingar
og félagsheild betur undir það búin að mæta kalli Krists og mæta kalli sam-
tímans. Það er því ekki að ófyrirsynju, heldur í takt við tímann, að íslenska
þjóðkirkjan hefur gert uppbyggingu safnaðarlífs eitt af höfuðverkefnum kirkj-
unnar á þessum síðasta áratugi aldarinnar.
Hér á landi má sjá glögg merki um sterka kirkjuvitund en um leið veikari
safnaðarvitund. Þetta ætti að vera velunnurum kirkjunnar talsvert áhyggjuefni.
Kirkjuvitundin birtist m.a. í því trausti sem fólk ber til kirkjunnar sem þjóð-
félagsstofnunar. Ekki ber að vanmeta það út af fyrir sig. Kirkjan er samkvæmt
stjórnskipan okkar ein af stofnunum samfélagsins og hlýtur að vera það, jafn-
vel þótt breyting yrði gerð á stöðu hennar gagnvart ríkisvaldinu. En hvers
konar stofnun, má spyrja? Að margra áliti menningarstofnun, með djúpar
rætur í íslenskri þjóðmenningu, en um leið farvegur fyrir alþjóðleg menningar-
áhrif á liðnum öldum. Það er vafalaust satt og rétt. En felst í þess háttar kirkju-
vitund fyrst og fremst viðurkenning á framlagi kirkjunnar til liðinnar menn-
ingarsögu, en um leið harla litlar væntingar til hennar um að vera þátttakandi
í mótun þeirrar menningar sem er að gerjast nú í samtíðinni? Ef það reyndist
vera rétt hljótum við að spyrja, hvort sú menningartengda kirkjuvitund, sem
horfir fyrst og fremst um öxl, til fortíðarinnar, en finnur ekki stað fyrir kirkj-
48