Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 53
Söfnuður og samtíð
í kirkjulegu starfi. En á upplýsinga- og boðskiptaöld í fjölhyggjusamfélagi er
fræðslan, umræðan og rökræðan, á meðal allra brýnustu verkefna kirkjunnar
og safnaða. Sannindi trúarinnar, þótt þau byggi á opinberun Guðs, verða ekki
sannindi fyrir mér og þér fyrr en þau öðlast trúverðugleika í tengslum, oft upp-
gjöri, við þau lífsviðhorf og lífsvanda, sem mætir okkur í samtíðinni. Trú er
jafnan afstaða til málefna, sem menn láta sig mestu varða. Tjáning trúarinnar
er túlkun á veruleikanum eins og hann kemur okkur fyrir sjónir, þar sem
sjónarhornið er opinberun Guðs í Jesú Kristi. Þess vegna er brýnt, að söfnuð-
urinn sinni fræðsluskyldu sinni með tilboðum um námskeið, fræðslufundi og
umræður, þar sem sjónum trúarinnar er beint að málefnum sem eru ofarlega
á baugi á hverjum tíma, og á hverjum stað. Þannig skerpist í senn trúarskiln-
ingurinn og safnaðarvitundin. Ekki þarf að efast um áhuga safnaðarfólks. Það
sýnir m.a. góð þátttaka í Leikmannaskóla kirkjunnar, sem nú hefur starfað
nokkur undanfarin ár. Skírnarfræðsla kirkjunnar er á ábyrgð safnaðanna. Sú
fræðsla takmarkast ekki við barna- og fermingarfæðslu, né heldur við kristin-
fræðikennslu í skólum. Fullorðinsfræðsla er nauðsynlegur þáttur í skírnar-
fræðslunni, en er um leið sá þáttur, sem mest er vanræktur í kirkjunni okkar.
Þar bíða mörg áhugaverð verkefni, sem hiklaust má telja að verði safnaðar-
starfinu til eflingar. Fræðsludeild kirkjunnar er fús til að veita söfnuðum að-
stoð á þessum vettvangi.
Líknarþjónusta er annar vaxtarbroddur í öflugu safnaðarstarfi. Sumir
ætla, að velferðarkerfið hafi leyst kirkjuna af hólmi í þessum efnum. En það
er mikill misskilningur. Og nú ætla ég ekki að ráðast á garðinn þar sem hann
er lægstur, og benda á augljósar brotalamir í velferðaþjónustu hins opinbera.
Grannt skoðað endurspeglar velferðarhugtakið göfuga siðferðilega hugsjón,
sem skírskotar í senn til ríkrar persónulegrar ábyrgðar okkar sem einstaklinga
í velferðarmálum og til þeirrar samábyrgðar sem við berum sem þjóðarheild.
Velferðarkerfið rís því aðeins undir nafni, að það skerpi fremur en slævi þá
siðferðiskennd, sem geldur jáyrði við spurningunni fornu: Á ég að gæta bróður
míns? Ekkert kerfi mun nokkurn tíma koma í staðinn fyrir slíka líknar- og
velferðarþjónustu, sem miskunnsami Samverjinn innti af hendi. Hins vegar
munu kerfiskarlar, líkir prestinum og levítanum í dæmisögunni alþekktu, ein-
att verða samir við sig og ganga framhjá. Skipulögð líknarþjónusta á vegum
kirkjunnar, sem eflir okkur til persónulegrar þjónustu við náungann, getur veitt
hinni opinberu velferðarþjónustu ómetanlegan stuðning, um leið og hún minn-
ir stjórnvöld á, hver sé sá siðgæðisgrunnur, sem sönn velferð hljóti að rísa á.
Kirkjan stendur í ýmsu tilliti á krossgötum, og nú er brýnt að ræða hvaða
stefnu skal taka. Samtíðin er ekki andsnúin kirkjunni. Þvert á móti hygg ég,
að hún sé opnari fyrir áhrifum kristinnar trúar en ýmsir fyrri tímar. Spurningin
51