Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 82
Einar Sigurbjörnsson
gáfu að Emser hafði notað þýðingu Lúthers að stórum hluta án þess að geta
þess. Lúther fjallar um þetta með bitru háði, nefnir Emser „blekbullarann frá
Dresden" (den Sudler zu Dresden)8 og telur sig að vissu leyti hafa fengið upp-
reisn æru þegar fólki er í öðru orðinu bannað að lesa Nýja testamenti Lúthers
en í hinu orðinu skipað að lesa það, þegar það birtist undir nafni annars manns.
Orðrétt segir Lúther:
Ég vildi gjarna sjá þann pápista sem gæfi sig fram og þýddi svo sem eins og einn
pistil heilags Páls eða einn spámann yfir á þýsku án þess að notfæra sér þýðingu
og þýsku Lúthers. Það yrði nú ljúf og fögur þýska! Vér höfum líka séð blekbullar-
ann frá Dresden sem hafði gagnrýnt testamenti mitt (ég vil ekki framar nefna nafn
hans í bókum mínum, enda hefur hann nú mætt dómara sínum og allir vita um
hvem ég er að tala).9 Hann viðurkenndi að þýskan mín væri sæt og góð og ekki
væri hægt að gera betur. Síðan vann hann sér það til skammar að taka Nýja testa-
mentið mitt frá orði til orðs eins og ég hafði skrifað það, taka burt formála mína
og skýringargreinar, skrifa sitt nafn, formála og skýringar og selja síðan mitt Nýja
testamenti undir sínu nafni. Börnin mín! Það særði mig þegar fursti hans for-
dæmdi Nýja testamenti mitt í andstyggilegum formála og bannaði fólki að lesa
það um leið og hann bauð fólki að lesa Nýja testamenti blekbullarans þó að það
væri ekki annað en það sem Lúther hafði gert.
Og til þess að enginn haldi að ég fari með rangt mál, þá taki hann bæði testa-
mentin sér í hönd, testamenti Lúthers og testamenti blekbullarans og beri þau
saman til þess að sjá hvor sé þýðandinn. Hann hefur hnikað til orði og orði sem
mér líkar ekki alltaf vel þótt ég láti mér á sama standa um það hvað textann
varðar. Þess vegna hef ég heldur ekki skrifað gegn útgáfunni. En ég get ekki varist
hlátri yfir þeirri miklu speki sem formælir, fordæmir og bannar Nýja testamenti
mitt þegar það er útgefið í mínu nafni, en mælir með lestri þess þegar það er
útgefið í nafni annars. Hvílík dygð að fordæma og lasta bók eins, stela henni síðan
og gefa út í eigin nafni og leita þannig persónulegs heiðurs og hróss fyrir fordæmt
verk annars manns. Ég læt dómaranum eftir að meta það. En mér er það nóg og
get glaðst yfir því (eins og heilagur Páll hrósar sér líka af [F1 1.18]) að verk mitt
sé eflt og bók Lúthers sé lesin án nafns hans en undir nafni óvinar hans. Er til
sætari hefnd?
Látum þetta nægja um tilefni ritsins, en snúum okkur að meginefni bréfs-
ins.
III
Lúther er mjög hvassyrtur í riti sínu í garð pápista og nefnir þá „burðardýr
bakarans“ eða asna sem hríni og geti ekki annað en burðast með þá byrði sem
eigandinn setur á þá. Lúther minnir á að hann hafi hlotið menntun sína í há-
8 Þessa þýðingu á Sudler hef ég úr Þýsk-íslenskri orðabók Jóns Ófeigssonar.
9 Hér á Lúther við Hieronymus Emser sem lést 1527.
80