Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 84
Einar Sigurbjörnsson
staðar og vil halda í bæði orðin solum og sola. Ég hef lagt mig fram um að þýða
yfir á eins hreina og skýra þýsku og mér er unnt. Oft hefur það komið fyrir að
að vér höfum eytt hálfum mánuði, jafnvel þrem, fjórum vikum í að leita merkingar
eins einasta orðs og jafnvel ekki fundið. Þegar vér þýddum Jobsbók gekk það oft
þannig að meistari Filippus,10 Aurigallus* 11 og ég gátum ekki þýtt nema þrjár til
fjórar línur á mörgum dögum. Nú liggur sú bók fyrir í þýðingu og hver og einn
getur lesið hana og gagnrýnt. Það er hægt að hlaupa yfir þrjár, fjórar síður án þess
nokkru sinni að reka sig á, heldur komast menn í gegnum textann erfiðleikalaust.
Það er eins og að ganga yfir vel heflaða brú. Vér strituðum og svitnuðum við að
ryðja burt heilmiklu grjóti og torfærum áður en það var hægt. Það er auðvelt að
plægja þegar búið er að hreinsa akurinn. En að ryðja skóginn og uppræta stubb-
ana er vinna sem enginn óskar sér. Það er ekki auðvelt að ávinna sér hylli heimsins
Jafnvel Guð hlýtur engar þakkir fyrir sólina, hvað þá himin og jörð eða dauða
sonar síns. Heimurinn er og verður í djöfuls nafni af því að hann vill ekki hafa
það öðru vísi.
En af hverju bætti hann orðinu solum eða sola (aðeins eða einni) inn í texta
Rómverjabréfsins? Því svarar hann á þessa leið:
Ég veit svo sannarlega að í Rómverjabréfinu 3 (28) er ekki að finna orðið (solum)
hvorki í gríska né latneska textanum. Það þurftu pápistar ekki að kenna mér. Það
er satt. Þessir fjórir bókstafir s o 1 a standa þama ekki. Svo stara þessir asnar á
þá eins og naut á nývirki og neita að sjá að þessi er merking textans. Stafirnir
tilheyra textanum ef merking hans á að vera ljós og skýr. Ég vildi nefnilega tala
þýsku en ekki latínu eða grísku þar eð ég hafði tekið að mér að þýða yfir á þýsku.
Samkvæmt eðli vorrar þýsku tungu er nauðsynlegt þegar talað er um tvo hluti
þar sem öðrum er játað en hinum neitað að setja orðið solum (allein (þ.e. aðeins))
við hliðina á orðinu ekki eða enginn. Svo að dæmi sé tekið segjum vér: „Bóndinn
kemur aðeins með korn en enga peninga." „Nei, svo sannarlega hef ég enga pen-
inga núna, heldur aðeins korn.“ „Ég er aðeins búinn að borða en er ekki ennþá
búinn að drekka.“ „Ertu aðeins búinn að skrifa en ekki lesa yfir?“ Um þetta mætti
finna ótölulega fleiri dæmi úr daglegu máli.
Þetta er þýsk orðnotkun enda þótt það sé ekki latnesk eða grísk málnotkun.
Á þýskunni er orðið aðeins (allein) notað með orðunum ekki eða enginn til þess
að merking þeirra orða geti orðið fyllri og skýrari. Ef ég segi: „Bóndinn kemur
með korn og enga peninga“, þá hljóma orðin „enga peninga" ekki eins skýrt og
greinilega og ef ég segi: „Bóndinn kemur aðeins með korn en enga peninga.“
Orðið aðeins hjálpar orðinu enginn svo að úr verður skýr og góð þýska.
Orðnotkunin ræðst með öðrum orðum af því tungumáli sem þýtt er á. Og
í beinu framhaldi koma orð Lúthers sem oft er vitnað til, þar sem hann telur
10 Filippus Melankton (1497-1560), prófessor í grísku í Wittenberg, nánasti samverkamaður
Lúthers.
11 Matthías Aurigallus (1490-1543), prófessor í hebresku í Wittenberg, samverkamaður Lúthers
við þýðingu Gamla testamentisins.
82