Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 107
Vökumaður, hvað líður nóttunni ?
bendir á um notkun „menningarinnar“ á Biblíunni má nefna að hann heldur
því fram að menningin sé yfirleitt jákvæð í garð Biblíunnar og þangað sæki
listamenn innblástur. Þeir virðast hins vegar ekki gera sér mikið far um að
skilja Biblíuna, heldur noti hana fyrst og fremst sem safn tilvitnana og gjarn-
an sé notkun hennar þannig háttað að það sé þegjandi samkomulag milli
höfundar og lesanda um að verið sé að vitna í Biblíuna. Menningin telur sig
hafa Biblíuna sín megin, virðir hana en lítur ekki á hana sem kennivald og
sniðgengur gjarnan hið guðlega í henni.8 Að sjálfsögðu byggjast þessar stað-
hæfingar Clines á ákveðnum einföldunum, en eru forvitnilegar engu að síður.
í kaflanum um Biblíuna meðal almennings furðar Clines sig á því hversu
litlar rannsóknir hafa átt sér stað á notkun almennings á Biblíunni og á áhrifum
hennar. Ljóst sé að allir hafi skoðanir á henni, en þessar skoðanir hafi nánast
ekkert verið kannaðar. I framhaldi af því skýrir hann frá könnun sem hann
hefur gert með aðstoð nemenda sinna á lestri og biblíuþekkingu almennings
í Sheffield. Þetta finnst mér veikasti kafli bókarinnar og hér gætu trúarlífs-
félagsfræðingar gert betur, en Clines er ekki síst að vekja athygli á vanræktu
fræðasviði. Meginniðurstaða hans — með ýmsum fyrirvörum þó — er á þá
leið að Biblían hafi einstaka stöðu meðal almennings, í alþýðumenningunni.
Loks fjallar hann um Biblíuna og kirkjuna og byrjar á því að leggja áherslu
á að kirkjan hafi engan einkarétt á Biblíunni. Einna athyglisverðust í þessum
kafla er sú staðhæfing Clines að biblíufræðin hafi haft harla lítil áhrif á notkun
Biblíunnar í kirkjunni, þróun biblíugagnrýninnar hafi tæpast snert hana. En
hann leitast einnig við að gefa kirkjunni ráð og þau er ekki síst á þá leið að
ef kirkjan fellst á fjölbreytni í túlkunum leysi það úr læðingi sköpunargáfu
einstaklinganna í söfnuðunum. Hann telur að kirkjan hafi aldrei haft áhuga á
hlutlægri ritskýringu og ef kirkjan þurfi á einhverri aðstoð að halda frá háskól-
unum þá sé það hjálp við að komast í snertingu við eigin túlkunarhefð.
Ég hef gerst hér nokkuð langorður um þessa bók Clines vegna þess að ég
tel fróðlegt að kanna notkun sr. Friðriks á Gamla testamentinu með ýmsar
niðurstöður Clines að leiðarljósi.
Þessum þætti í fjölbreytilegu starfi sr. Friðriks hefur ekki verið mikill
gaumur gefinn áður eða a.m.k. ekki kannaður sérstaklega. Hér verður ekki um
tæmandi rannsókn að ræða heldur er ætlunin fyrst og fremst að vekja athygli
á ýmsum forvitnilegum atriðum er snerta notkun sr. Friðriks á Gamla testa-
mentinu. Ber því að líta á þessa grein mína í víðara samhengi, sem brot af
ítarlegri könnun á margvíslegum áhrifum Gamla testamentisins hér á landi.
8 David J.A. Clines, The Bible and the Modern World, Sheffield Academic Press 1997, s.
47-54.
105