Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 115
Vökumaður, hvað líður nóttunni?
og hefur hann yfirleitt verið nefndur Jesaja annar (Deutero-Jesaja), en stund-
um huggunarspámaður útlegðartímans. Síðarnefnda nafnið er við hæfi því
meginstef þessa rits birtist í upphafsorðum 40. kaflans: „Huggið, huggið lýð
minn.“
Eina af prédikunum sínum út frá þessum texta flutti sr. Friðrik úti á miðju
Atlantshafi um borð í Gullfossi 8. október 1916, en hann var þá á leið heim
til Islands eftir að hafa um skeið starfað meðal Islendinga í Vesturheimi. í
prédikun sinni fjallar hann allítarlega um þann texta sem lagt er út af, en
kemur þó ekki inn á inngangsfræðileg atriði, eins og hvort kaflinn sé frá 8.
aldar spámanninum Jesaja í Jerúsalem eða einhverjum öðrum. Engu að síður
verður ljóst af lestri prédikunar hans að hann gengur út frá því að rót kaflans
sé að finna á því tímaskeiði er Gyðingar voru í útlegð í Babýlóníu, þ.e. 587-
538 f.Kr. Að því leyti má segja að hann gangi út frá þeirri skoðun sem var
ríkjandi meðal talsmanna hinna gagnrýnu biblíuvísinda að þessi kafli sé meðal
þeirra kafla (40-66) sem endurspegli allt annan tíma en 8. aldar spámaðurinn
Jesaja Amotsson í Jerúsalem var uppi á. Það minnir mig á þá staðhæfingu
Clines að kirkjan hafi yfirleitt í boðun sinni sniðgengið niðurstöður þeirra
biblíurannsókna sem kenndar eru við guðfræðideildir háskólanna. Hér gerir
sr. Friðrik það ekki, en víða annars staðar virðist hann gera lítið með þær
niðurstöður og sækja mikið meira í eldri og hefðbundnari ritskýringarhefð
kirkjunnar.
Prédikun þessi er mjög persónuleg og veitir innsýn í starf sr. Friðriks
meðal holdsveikra. Holdsveikraspítalinn í Laugamesi hafði tekið til starfa árið
1889, og var sr. Friðrik vígður til þjónustu þar árið 1900 og annaðist spítalann
til 1908. Sr. Haraldur Níelsson tók síðan við og þjónaði stofnuninni til ævi-
loka.23 Prédikun sr. Friðriks er einnig athyglisverð fyrir það hvernig hann sér
hliðstæðu meðal Vestur-íslendinganna og Gyðinganna í dreifingunni, sem
huggunarspámaðurinn starfaði á meðal, sá spámaður er hlaut köllun sína með
þeim hætti sem skýrt er frá í 40. kafla Jesajaritsins. „Kalla þú!“ og ég svaraði:
„Hvað á ég að kalla?“ Þannig voru líka viðbrögð sr. Friðriks gagnvart starfinu
meðal hinna holdsveiku. „En hversu veik eru orð vor þegar vjer stöndum
gagnvart stórri sorg,“ segir sr. Friðrik og bætir við: „Hversu opt hef jeg fundið
það í minni köllun, og það svo sáran, að mig langaði helzt til að leggja árar
í bát og hætta við allt saman.“
Þessum vanmætti sfnum lýsir hann einnig þannig: „Ég heyrði að einhver
sagði: Kalla þú! en innst í hjarta mínu eins og æpti sál mín til drottins: hvað
á jeg að kalla.“ Síðan lýsir hann því hvernig orðin úr 40. kafla Jesajaritsins
23 Þórir Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík 1996, II s. 52-53.
113
L.