Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 127
Vökumaður, hvað líður nóttunni ?
Þvert á móti er hann fullur lotningar í garð víngarðsins, þ.e. hinnar heilögu
kirkju og erindreka hennar, sbr. eftirfarandi orð hans:
Og er jeg í anda lít yfir þennan víngarð ástvinar vors allt frá hinum fyrstu starfs-
mönnum hans og til vorra daga fyllist sál mín og hugur af lotningu og ást, ekki
aðeins til hans heldur og til þessa víngarðs hinnar heilögu kirkju Guðs. Jeg undrast
hið mikla kraftaverk að hún hefur staðist í straumi aldanna . . . og jeg finn að
öllu er óhætt, því að hann sjálfur er með þjónum sfnum og lærisveinum alla daga
allt til enda veraldarinnar.
Prédikun sína endar sr. Friðrik á því að fagna yfir hinum nýja sáðmanni
í víngarði Drottins og biðja fyrir honum og framtíðarstarfi hans.
Jesajaritið var sr. Friðriki greinilega mjög hugleikið og átti það við um
alla þrjá meginhluta þess, sem nútíma biblíufræði hafa aðgreint (þ.e. k. 1-39;
k. 40-55 og k. 56-66). Það er það rit Gamla testamentisins sem hann notar
mest í prédikunum sínum, hugvekjum og ræðum, en séu húskveðjur, útfarar-
ræður og hjónavígslur einnig taldar með er það Saltarinn sem hefur vinning-
inn. Þessi tvö rit eru í algjörum sérflokki þegar skoðuð er notkun sr. Friðriks
á einstökum ritum Gamla testamentisins.
Lokaorð
Notkun sr. Friðriks, hins áhrifamikla æskulýðsleiðtoga, á Gamla testamentinu
er óvenjulega mikil og áberandi meiri en notkun nýgufræðinganna svokölluðu.
Skýrist það að verulegu leyti af því hvaða augum hinar ólíku trúmálafylkingar
litu Gamla testamentið. Val sr. Friðriks á textum einkennist af mikilli fjöl-
breytni. Þannig prédikar hann út frá textum sem yfirleitt er ekki prédikað út
frá í íslensku kirkjunni. Dæmi um það eru prédikanir hans út frá ættartölum
og Ljóðaljóðunum. Einkunnarorð sín sótti hann í Gamla testamentið (Jes 12:3)
og heitið á aðal prédikanasafni hans var einnig sótt í Gamla testamentið (S1
46). Hann er óhræddur við að beita allegórískri túlkun og að ganga á ýmsan
annan hátt mjög langt í að heimfæra textana, losa þá út úr sínu upphaflega
samhengi, eins og þegar hann t.d. talar um útvalningu íslensku þjóðarinnar.
Þó að textaúrval sr. Friðriks einkennist fyrst og síðast af miklum fjölbreyti-
leika fer ekki hjá því að hann eigi sína uppáhaldstexta. Það eru yfirleitt textar
sem lýsa mikilli og sterkri Guðstrú, eru til þess fallnir að boða huggun og styrk
jafnframt því sem þeir lýsa einlægri og innilegri elsku til Jesú Krists. Þannig
að þar verða ástarkvæði Gamla testamentisins honum lind sem hann leitar
mjög til. Einnig virðast textar sem lýsa ábyrgð hins kristna manns um að hann
„lýsi“ öðrum og sé þeim fyrirmynd vera sr. Friðriki hugleiknir. A stundum
125