Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 146
Hjalti Hugason
Hefir ekki alt af eitthvað af þeim sama geðblæ innileikans hvílt yfir páskahátíðinni
fram á þennan dag? Hávær gleði á ekki við. Sú hátíð kemur svo mjúklega og
hljóðlega sem mildur vorblærinn eftir vetrarkuldann, eða sem sól úr skýjum yfir
blómin eftir þungar regnskúrir, eða sem árroðinn eftir daggarnótt, þar sem alt er
á kafi í tárum. (Haraldur Níelsson 1920: s. 123)
Höfundur lýsir páskunum þar af leiðandi sem andhverfunni við sigurhátíð hins
ytri máttar, hnefaréttarins, ofbeldisins og hins drottnandi valds. Þessar and-
stæður hafa án efa orkað sterkt á lesendur hans þar sem fyrri útgáfa bókar-
innar kom út tveimur árum eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og önnur útgáfa
skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari.
Höfundur bendir á að almennt sé því trúað að hinn líðandi kærleikur fari
ætíð halloka. Þetta telur hann að hafi mótað afstöðu lærisveina Krists er kon-
urnar færðu þeim upprisutíðindin. Þá telur hann að Pétur hafi átt auðveldast
með að veita boðskapnum viðtöku sökum þess að hann hafði tekið út mestu
þjáningarnar í kjölfar afneitunar sinnar á Kristi. Þegar hann hafði séð Drottin
upprisinn
... tók hann að halda sigurhátíð - í auðmýkt og þakklæti sundurkramins anda, og
þó með fögnuð fyrirgefningarinnar og friðarins í hjarta sínu, með nýja von í sál
sinni og endurfætt hugrekki. (Haraldur Níelsson 1920: s. 123)
Haraldur telur þó að allir lærisveinamir hafi fagnað „... í kyrþey, sjálfsagt í
fyrstu hljóðir - afskaplega undrandi.“ (Haraldur Níelsson 1920: s. 123)
Þessi orð sýna að páskapredikun Haraldar Níelssonar einkennist af miklum
innileik, næmni og innlifun í atburðarás hátíðarinnar. Höfundurinn nálgast til-
heyrendur sína líka á jákvæðan hátt. Hann gerir ráð fyrir að þeir þekki af eigin
raun stöðu þess sem þjáist, þráir lausn og hefur jafnvel þegar fundið hana.
Má ætla að þessi afstaða hafi með sérstökum hætti höfðað til safnaðarins í
Laugarnesspítala:
Og nú tel ég víst, að þér flestir eða jafnvel allir elskið það ljós og lofið Guð fyrir
það, og að þér hafið látið það lýsa yður marga erfiða stund. Dýpst í hugskoti yðar
býr vafalaust einhver þrá eftir því að votta hinum líðandi og fórnandi kærleika
samúð yðar. Hjá öllum þeim, sem hafa í sannleika trúhneigðan hug, býr eitthvað
af þeirri tilfinning. (Haraldur Níelsson 1920: s. 124)
Öfugt við fjölmarga predikara nú á dögum eyðir Haraldur því ekki löngum
tíma í útlistun á þeirri þjáningu sem hann álítur að áheyrendur sínir ættu að
taka út en væru ónæmir fyrir! Predikun hans verður því ekki áminning eða
dómsorð heldur tengist hún sálgæsluhlutverki kirkjunnar með athyglisverðum
144