Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 254
Sigurjón Arni Eyjólfsson
1.2 Fordómar um rétttrúnaðinn
Þó er eftirtektarvert að í framsetningu Helga bregður fljótt skýi fyrir sólu þeg-
ar talið berst að rétttrúnaðinum lútherska, þá er strax aftur kominn dumbungs-
vetur. Það virðist vera almenn söguskoðun á íslandi að „svartnætti miðalda“
hefjist hér á landi með siðbótinni ólíkt því sem jafnan var talið í Evrópu. Þegar
talið berst að rétttrúnaðinum er meginumræðuefnið oftast útvalning og hel-
vítisvist, syndarvitund og óöryggi mannsins gagnvart reiðum Guði. Þannig
segir í öðru bindi Islenskrar bókmenntasögu:
A lærdómsöldinni var gagnlegt að þekkja eðli og innræti andskotans, og breyttist
það fyrst á tímum upplýsingarinnar [18. öld] og svo með nýguðfræðinni [20. öld].
Satan var allstaðar nálægur, hann var hræðileg ófreskja sem reyndi með öllum
tiltækum ráðum að véla til sín veikgeðja sálir. Fyrir gat þó komið að hann yrði
verkfæri í höndum Guðs og væri þá beitt til að refsa forhertum.16
Þessi dómur á vissulega við rök að styðjast og það er gagnlegt að hafa hug-
myndir rétttrúnaðarins um andskotann í huga. Hann er hins vegar ekki túlk-
unarlykill á tímabilið. Slíkt er of mikil einföldun. Hér má nefna íslandslýsingu
Odds Einarssonar biskups sem kom út í upphafi sautjándu aldar. í henni freist-
ar hann þess að „afgoðmagna“ þá mynd af helvíti sem bundin var við Heklu
og Island með skynsamlegum rökum og deilir á menn sem leita yfirnáttúru-
legra skýringa á því sem þeir skilja ekki. Eins og hann segir sjálfur: ,,[E]kki
hæfir heldur að mínu áliti að svipta hlutina undir eins eðlilegum orsökum, ef
einhver er svo ólánlega gefinn, að hann megnar ekki að skilja þær.“17 Oddur
var að sjálfsögðu bundinn af heimsmynd síns tíma en í ljósi hennar vísar hann
til þess að veruleiki hins illa og Satans sé ekki staðbundin, heldur samofinn
manninum og gjörðum hans. Hann andmælir t.d. þeirri skoðun að Hekla sé
inngangurinn að helvíti og undirstrikar að Hekla sé eldfjall. En þetta eldfjall
getur Guð vissulega notað til að áminna menn um þau örlög sem búin eru
hinum syndugu um alla tíð.
Svo að ég komi aftur að hinum eiginlegu jarðeldum og ofsafengnu eldgosum, þá
munu allir grandvarir menn játa, að þessi fyrirbrigði... verði ekki á nokkurn hátt
lögð að jöfnu við sjálf heimkynni gerspilltra anda ... Engu að síður er ég sjálfur
þeirrar skoðunar, að af slíkum jarðeldum ... getum vér með góðri samvizku dregið
þá ályktun, að guð hafi viljað sýna oss þá til að minna oss á miklu ógurlegri og
16 „Slík kenning var boðuð á prenti á íslandi árið 1641 þegar út kom á Hólum þýðing Þorláks
Skúlasonar á bókinni Einn lítill Sermon um Helvíti eftir Erasmus Winter." íslensk Bók-
menntasaga 2. bindi, 512.
17 Oddur Einarsson: íslandslýsing, 46.
252