Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 261
Af umfjöllun manna um lútherska rétttrúnaðinn
1
föðurvald stjómvalda yfir þegnum sínum.42 Furstinn var skilinn sem verkfæri
í höndum Guðs í forystu sinni fyrir þjóðinni. Húsbóndavaldið var fyrirmynd
alls annars valds á jörðu. Um leið og boðorðið tryggði valdsvið stjórnandans
setti það því sinn ramma því yfirvaldið þurfti að lúta boðorðunum eins og allir
þegnar landsins og þau meinuðu furstanum að nota vald sitt til að hrifsa til
sín eignir þegnanna eða brjóta gegn réttindum þeirra.
Sáttmálshugsunin. í þessu samhengi ber að gæta að því að þjóðfélags-
gerðin á 17 öld byggði ekki svo á lögum sem höfðuðu til veruleika sem settur
væri yfir samfélagið, sá lagaskilningur kom fyrst inn í réttarsöguna með
einveldinu. Þjóðfélagsgerðin byggði á sáttmálshugsun, sem grundvallaðist á
beinum samningum milli tveggja aðila. Sáttmálinn og áherslan á játninguna
áttu vel saman, því í báðum tilvikum var höfðað til sannfæringar og til sam-
eiginlegs grundvallar sem báðir aðilar stóðu á. Þar við bættist að játningin og
sáttmálin miða bæði við lifaðan veruleika og frjálsa viljaákvörðun. I sátt-
málann er innbyggð sú krafa að honum sé stöðugt haldið við, og verði brestur
á fellur hann úr gildi. Loks eru bæði játningin og sáttmálinn bundin af hefð
og vísa í ljósi hennar til framtíðar. Játningin er sett til að vernda hið gamla
eða opinberun Guðs og á sama máta er leitast við í sáttmálanum að tryggja
og endurnýja hefðina inn í hverja samtíð. Vissulega voru sáttmálar og játning-
arnar manna orð en þau byggðu á mætti Guðs sem var handan hins mannlega
og manninum er ekki leyfilegt að breyta eða umtúlka hinn guðlega sannleika,
nema innan þess ramma er opinberunin sjálf setur.
Þessi trúarlega grundvallarhugsun varð varhugarverð á 17. öld, þegar hver
kirkjudeild sló eign sinni á opinberunina og gerði þar með andstæðar kirkju-
deildir að villutrúarmönnum, sem féllu fyrir utan ramma samfélagsins. Þennan
vanda yfirunnu ekki hinir hátíðlegustu eiðar í samningarviðræðum, því báðir
aðilar höfðuðu til opinberunar Guðs, sem deilan stóð endanlega um. Afleiðing
þessa var trúarlegt óöryggi sem varð að réttarfarslegri óvissu.43
II. 1.3 Viðleitnin við að draga skýr mörk
Óöryggi og óvissa tíðarandans kom einnig skýrt fram í þeirri viðleitni manna
á 17. öld að draga skýr mörk milli aðila og stétta innan samfélagsins. Lögð
var áhersla á formfestu í daglegri umgegni einstaklinga og stétta. I ritmáli
42 Marteinn Lúther hafði sjálfur bent á þetta, m.a. í útleggingu sinni á fjórða boðorðinu, hann
hafði hins vegar tveggjaríkjakenninguna í bakhöndinni sem varnagla gagnvart því að láta
þetta ganga of langt. Sjá Peters: Kommentar zu Luthers Katechismen Bd. 1, 191-202.
43 Heckel: Zum Sinn und Wandel der Freiheitsidee im Kirchenrecht der Neuzeit, 461-468.
Heckel: Deutschland im konfessionellen Zeitalter, 89-99, 214.
259