Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Page 262
r
Sigurjón Árni Eyjólfsson
duldu menn sig á bakvið skrúðmælgi og hátíðlegan ritstíl og sama áhersla
skyggði á lífsgleði daglegs lífs. Fatatískan kom tíðarandanum einnig vel til
skila, en þar var svart og brúnsvart allsráðandi, sem ýtti til hliðar litríku silki-
efni, víðum ermum og öðru skrauti í klæðaburði siðbótartímans.
Furstadæmin nutu meira sjálfstæðis en áður og voru hvert og eitt sem lítil
sjálfstæð ríki. Þau kepptust við að festa sig í sessi og styrkja sjálfsímynd sína.
Ríkin uppgötvuðu svo að segja hið opinbera líf og nauðsyn þess að sýna veldi
sitt. Þessi áhersla kom ekki einungis fram í eflingu lista og byggingu skraut-
hýsa, heldur var hvert tilefni nýtt til að rækta sjálfsmeðvitund ríkisins meðal
þegnanna. Þannig var m.a. minnst með viðhöfn fæðingardaga, giftingu og
dauða þeirra sem tilheyrðu fjölskyldu stjórnandans. Opinberar heimsóknir,
friðarsamningar og sigrar voru haldin hátíðleg. Háskólinn varð hluti af hinu
opinbera lífi og setning hans og slit urðu að stóratburðum. Doktorsvarnir urðu
viðhafnarmeiri og áhersla á titla og nafnbætur jukust. Hið sama á við um
dómskerfið og kirkjulíf, hátíðleiki og formfesta voru í fyrirrúmi. Menningar-
lífið tók fullan þátt í þessum breytingum og leikhúslíf varð að miðpunkti þess.
Um þetta segir Heckel:
„Áhersla kaþólskra á tignarraðir og stéttskipt þjóðfélag hentaði því tíðarandanum
vel. En mótmælendur lögðu einnig áherslu ... á þá skikkan skaparans sem lá að
baki allri aðgreiningu milli stétta og atvinnu innan þjóðfélagsins“.44
Afmörkunin á milli „embættismannsins“ og „kristins einstaklings“ var gegn-
umgangandi.
Hin blóðbundna stéttarvitund sem var upphaflega mótandi á Spáni og í
Frakklandi á síðmiðöldum breiddist nú út um alla Evrópu. Aðallinn skildi sig
alfarið frá borgurum og bændum og nú hélt hver sig innan sinnar stéttar. Aðall-
inn þjónaði við hirðina, í stjórnkerfinu og í hans hendi voru stórjarðirnar, en
borgarastéttin sá um verslun og viðskipti, á meðan bændur sinntu matvæla-
framleiðslu. Möguleikar á almennum frama óháð stétta eða uppruna innan
samfélagsins varð einungis möguleg fyrir presta, lögfræðinga og hermenn.
Þessi íhaldssemi kom einnig skýrt fram gagnvart öllum nýjungum. Hið gamla
er gott, satt og gilt, eins og alltaf áður. Allt nýtt var aftur á móti varhugarvert
og tengt við hroka Adams og fall hans. „Nýjung“ og „nýtt“ urðu því skammar-
yrði í eyrum fólks. Þessi þjóðfélagslega uppbygging skapaði vissulega festu,
en gerði það um leið ósveigjanlegt.
44 Heckel: Deutschland im konfessionellen Zeitalter, 216.
260