Hugur - 01.01.2013, Blaðsíða 7
Inngangur ritstjóra
smiðshöggið á Hug að þessu sinni. Það þarf ekki að Mölyrða um mikilvægi Páls
fyrir íslenska heimspeki og það er sérstakur fengur að þessum tveimur greinum.
Spurningin um það hvert eigi að vera hlutverk heimspekingsins í opinberu lífi er
mikilvæg og hefur reyndar með hlutverk heimspekinnar sem slíkrar að gera og er
sérstaklega aðkallandi nú á tímum.
Að sumu leyti skylda spurningu má bera fram þegar kemur að því riti sem hér
er komið út. Til hvers er tímaritið Hugur? Heimspekingar spyrja gjarnan um
tilgang hlutanna með það að markmiði að skilja betur eðli þeirra og eiginleika.
Tilgangsspurningin um Hug er þó í mínum huga ekki heimspekileg nema upp að
ákveðnu marki. Hugur er eina tímaritið á íslensku sem er tileinkað heimspekinni
sértaklega. Það er gefið út af Félagi áhugamanna um heimspeki. Lesendur þess eru
áhugamenn um heimspeki á Íslandi. Því virðist liggja í augum uppi að tilgangur
tímaritsins sé að vera vettvangur fyrir heimspekilega umræðu á íslensku, að vera
vettvangur fyrir þær hugmyndir sem ber hæst á hverjum tíma, að veita þeim sem
stunda heimspeki á íslensku tækifæri til að ná til lesenda sem eru ekki endilega
heimspekingar heldur áhugamenn um heimspeki og heimspekilega hugsun. Hug-
ur hefur einnig það hlutverk að vera eina ritrýnda heimspekitímaritið á íslensku.
Hugur hefur því einnig þann tilgang að vera sá miðill heimspekilegrar umræðu
þar sem mestar kröfur eru gerðar til formfestu og fræðilegra atriða. Meðan á
vinnslu tölublaðsins stóð leitaði sú hugsun oft á ritstjóra hvort þessar tvær kröfur
sem gerðar eru til Hugar, eða þessar tvær hugmyndir um tilgang hans, eigi eða
geti farið saman svo vel sé. Er sjálfsagt að það fari saman að vera ritrýnt tímarit
með þeim fræðilegu kröfum sem því fylgir og að vera vettvangur fyrir áhugamenn
um heimspeki? Það er t.d. áhugvert að í þessu tölublaði birtist engin grein eftir
höfund sem ekki er sérmenntaður á sviði heimspekinnar eða skyldrar greinar,
enda vandséð hvernig grein rituð af öðrum en fagaðila kæmist í gegnum ritrýni.
Nú má ekki skilja þetta svo að ég sé að vega að ritrýni, og því síður að ritrýnum,
heldur er ég einfaldlega að velta upp spurningunni um tilgang. Ef Hugur á að vera
vettvangur fyrir heimspekilega orðræðu á íslensku virðist mér skjóta skökku við
að sú krafa sé gerð til orðræðunnar að hún sé akademísk og standist allar helstu
formkröfur akademískrar framsetningar. Heimspekileg hugsun og heimspekileg
orðræða hlýtur að þurfa að vera til á öðru formi en nákvæmlega þessu. Er það
hlutverk Hugar að sinna fleiri birtingarmyndum heimspekinnar eða á hann að
vera akademískt tímarit?
Þessar hugleiðingar tengjast auðvitað beint og óbeint hugmyndum um tilgang
heimspekinnar sem slíkrar: Á heimspekin að vera akademísk grein, eins og hver
önnur grein sem kennd er í háskóla, á hún að vera viðhorf til heimsins eða á hún
að vera afl til að breyta heiminum? Inngangur ritstjóra er ekki rétti vettvangurinn
til að fást við spurningar af þeirri stærðargráðu.
Mér er bæði ljúft og skylt að þakka þeim sem komu að útgáfu þessa árgangs
Hugar. Þar ber auðvitað fyrst að nefna höfunda efnis. Þær greinar sem birtast
hér bera höfundum sínum gott vitni. Höfundar eiga einnig hrós skilið fyrir þol-
inmæði og skilning þegar kemur að flumbrugangi ritstjóra. Ég vil einnig þakka
þýðendum greina sérstaklega, og svo eigendum höfundarréttar sem veittu leyfi
Hugur 2013-4.indd 7 23/01/2014 12:57:23