Hugur - 01.01.2013, Blaðsíða 140
Páll Skúlason
Stöðugrar baráttu er þörf vilji maður móta samkvæmar hugsanir og merkingar-
bæra lífshætti.
Að baki hugarrónni býr óöryggi og óvissa um örlögin og það hvernig lífið
muni að endingu verða – óvissa sem fyllir hugann angist og kvíða. Heimspekileg
hugarró er sú list að sætta sig við vafann: að leyfa honum að örva okkur til frekari
þroska og meðvitundar um þá vandasömu þætti raunveruleikans sem við höf-
um ekki ennþá náð tökum á og munum jafnvel aldrei ná tökum á. Með þessar
athugasemdir í huga má segja að heimspekingurinn sé sá sem iðkar gagnrýna
samræðu með yfirvegun, hugarró og samkvæmni að leiðarljósi í leitinni að dýpri
skilningi og þekkingu.
Nú mun ég snúa mér að opinberri ímynd heimspekingsins og skoða hvernig
hann kunni að svara köllun sinni með því að haga sér í samræmi við þessa opin-
beru ímynd. Rökfærsla mín verður með eftirfarandi sniði: Ég mun setja fram
þrjár fullyrðingar um hlutverk heimspekingsins og bregðast við þeim með gagn-
rýnum hætti í anda almennrar skynsemi. Síðan mun ég ræða með hvaða hætti
þessi gagnrýnu viðbrögð eru á misskilningi byggð og hvernig heimspeki getur í
raun og veru veitt okkur leiðsögn á óvissri vegferð á vit hinstu raka tilveru okkar
og orðið að liði við úrlausnir á raunverulegum vandamálum lífsins.
Fullyrðingarnar eru þessar: () Heimspekingurinn leitast við að finna merkingu
í heiminum, () hann leitast við að kenna fólki að meta raunveruleg verðmæti og
() hann gagnrýnir eigin samtíma í ljósi hugsjóna hagnýtrar skynsemi. Óþarft er
að taka fram að þessar fullyrðingar lýsa engan veginn öllu því sem heimspekingar
fást við. Ég er þeirrar skoðunar að hver sem iðkar heimspeki verði að lýsa með
eigin orðum hvað það er sem hann eða hún fæst við. Engu að síður segir sú mann-
eskja sem fæst við heimspeki iðulega við sjálfa sig eitthvað á þessa leið: „Ég þarf
sjálf(ur) að komast að því hvort það sé mögulegt að hugsa og tala um heiminn
með skipulegum hætti.“ Hver og einn heimspekingur tekst á við þessa áskorun
með sínum eigin aðferðum og leggur sjálfa(n) sig að veði í þeirri viðleitni.
Sá heimspekingur sem ég ímynda mér í opinberu hlutverki sínu eða samkvæmt
opinberu ímyndinni segir í fyrsta lagi við sjálfan sig: „Ég vil finna merkingu í heim-
inum og mi!la skilningi mínum á heiminum til annarra.“ Hann segir:
„Ég vil komast að mínum eigin niðurstöðum og ekki láta neinn annan segja
mér hverju ég eigi að trúa. Ég vil komast að því, með eigin yfirvegun og í samræðu
við aðra, hverju ég eigi að trúa um raunveruleikann, ef þá nokkru. Og þetta ætti
að vera stærsta viðfangsefni mitt því þetta er það sem skiptir raunverulegu máli:
Að komast að því hvað gerir heim okkar mannfólksins að því sem hann er, hvers
vegna raunveruleikinn birtist okkur með þeim hætti sem hann gerir og af hverju
ég er sú vera sem ég er eða mér finnst ég vera. Og ég ætla að lifa og aðhafast í
samræmi við það sem ég kemst að. Kannski kemst ég að því að í heiminum séu
tilteknir hlutir sem eru þess virði að trúað sé á þá, t.d. að til sé almáttugur Guð
sem öllu stjórnar, eða að heimurinn sé gerður úr merkingarlausu efni sem hefur
af tilviljun komið saman og myndað sólkerfi og meðvitaða heila. Og í kjölfarið
kemst ég að ákveðnum niðurstöðum um veruleikann sem ég leitast við að kenna
öðrum. Eða ég kemst að því að ég veit í raun ekkert um heiminn nema að hann er
Hugur 2013-4.indd 140 23/01/2014 12:57:30