Hugur - 01.01.2013, Blaðsíða 45
Skapandi sjálfsgleymi
ástæðu til að syrgja heldur fann hjá sér hvöt til að fagna lífi hennar með trommu-
slætti og söng.17
Fyrsti kafli ritsins sem kennt er við Zhuangzi nefnist Xiaoyaoyou 逍遙游 sem
mætti útleggjast sem „Ráfað um án markmiða“. Ráf þetta vísar til veru- eða verð-
andiháttar okkar í tilverunni. Í heildarsamhengi ráfum við um stutta stund sem
mannskepnur, tvístrumst svo og umbreytumst í önnur fyrirbæri og höldum þá
áfram gönguferðinni án vitundar um það í hvað við höfum breyst. Síðar í ritinu
er sagt frá nokkrum öldungum sem fylgjast af ástríðufullum áhuga með umbreyt-
ingum hvers annars á síðustu stigum lífsins. „Hvað skyldi nú verða úr þér næst?“
spyr einn þeirra spenntur þegar annar liggur á banabeðinu, „skyldir þú breytast í
rottulifur í þetta skipti? Eða flugufót?“18
Einlæg þátttaka í þessu umbreytingarferli sem lífið er einungis einn liður í
er forsenda þess að ráfið verði frjálst og skapandi. Það felur þá í sér að sætta sig
við örlög sín í víðara samhengi, sætta sig við að verða jafnvel að rottulifur eða
flugufæti að lokinni næstu stóru umbreytingu. Það er hins vegar viðleitni mín til
að ríghalda í sjálf mitt sem takmarkar veruhátt minn og firrir mig frá veraldarferl-
inu með því að afneita hinu óhjákvæmilega og ala á sjálfsblekkingum um stöðu
okkar mannfólksins. Í samlífi mínu með öðrum kemur óttinn við að glata þessu
sjálfi mér til að rembast við að sanna sérstöðu mína fyrir sjálfum mér jafnt sem
öðrum. Samanburðurinn við aðra kallar fram gildi sem ég nýti mér til að sannfæra
sjálfan mig um eigið ágæti. Ég tek að trúa því að ég sé eitthvað merkilegt, jafnvel
eitthvað merkilegra en aðrir. Þannig verð ég bæði sjálfhverfur og gráðugur og tjái
þessa eiginleika mína með hliðsjón af yfirborðskenndu samfélagslegu gildismati
sem leiðir til hatrammrar samkeppni og baráttu um eftirsótta en ekki endilega
eftirsóknarverða hluti. Á þennan hátt, segja daoistar, verðum við einberir þrælar
samfélagsins. Sterk sjálfsvitundin sem þessu fylgir hamlar auk þess náttúrulegri
sköpunargáfunni í flæði veraldarinnar. Við tökum að skilja samskipti okkar við
aðra fyrst og fremst sem átök og baráttu. Líf okkar einkennist þá öðru fremur af
gremju, kergju, öfund, ótta og vandlætingu á öðrum. En um leið erum við síður í
stakk búin til að glíma við veruleikann, því sjálfsvitundin raskar samstillingunni
við rás hans. Zhuangzi tekur dæmi af ölvuðum manni:
Ölvaður maður sem fellur af vagni, jafnvel þótt hann sé á miklum hraða,
mun ekki deyja. Bein hans og liðir eru hinir sömu og annarra en meiðsl
hans verða öðruvísi. Það er vegna þess að andi hans er heill. Hann var
þess ekki áskynja að hafa stigið upp í vagninn, né að hafa fallið af honum.
Í honum bærast engar hugsanir um líf og dauða, hvorki áhyggjur né ótti.
Þess vegna mætir hann hlutunum óáreittur. Ef einhver öðlast heilindi sín
með þessum hætti fyrir tilstilli áfengis, hversu heill getur þá sá ekki verið
sem öðlast þau frá himninum!19
Zhuangzi .–; Mair : –.
Zhuangzi .; Mair : .
Zhuangzi .–; Mair : .
Hugur 2013-4.indd 45 23/01/2014 12:57:25