Hugur - 01.01.2013, Blaðsíða 138
Páll Skúlason
spekinnar sem fræðilegrar starfsemi. Þó er aldrei að vita nema þær öðlist mikið
hagnýtt gildi og ljái iðkun heimspekinnar nýja merkingu, ekki aðeins innan
heimspekideilda háskóla eða menntastofnana, heldur jafnframt á opinberum
vettvangi þar sem veigamestu málefni samtíðar okkar eru rædd og ákvarðanir um
þau teknar.
Frá mínum bæjardyrum séð verður heimspekin að hætta sér inn á hinn opin-
bera vettvang í mun meiri mæli en hún hefur hingað til gert. Með þessu á ég bæði
við að heimspekimenntað fólk ætti að taka virkari þátt í opinberri umræðu og að
taka ætti meira tillit til heimspekilegra hugmynda og kenninga þegar málefni er
snerta almannaheill eru rædd. Heimspekin á ekki aðeins erindi við sérfræðinga
í rökfræði, siðfræði, þekkingarfræði og frumspeki, heldur allt það fólk sem vill
yfirvega með alvarlegum hætti heiminn eins og hann birtist á hinum opinbera
vettvangi – í Mölmiðlum, í viðskiptum og að sjálfsögðu á sviði stjórnmála og laga,
þar sem allar hliðar mannlífsins koma fyrir sjónir almennings.
Hvers vegna held ég þessu fram? Af hverju trúi ég eindregið á það að heim-
spekin eigi sér opinbert hlutverk? Svar mitt er þetta: Hver sem iðkar heimspeki
leggur sig fram um að segja eitthvað um heiminn sem hefur almennt gildi og
ætti því að varða hverja einustu hugsandi veru. Það sama gildir um fólk sem lætur
til sín taka á sviði hins opinbera. Það á að tjá sig um málefni líðandi stundar
sem hugsandi mannverur með eigin skynsemi að vopni – ekki í nafni viðtekinna
vísinda eða sérþekkingar. Að sjálfsögðu á opinber umræða að taka tillit til þekk-
ingar af öllu tagi en hún á umfram allt að byggjast á því að við viðurkennum og
virðum hvert annað sem einstakar hugsandi verur andspænis leyndardómum og
óleystum verkefnum mannlegrar tilveru. Heimspeki fæst með beinum hætti við
þessa merkingarvídd í viðleitni sinni til að skýra hugtök og hugmyndir. Slíkrar
hugsunar er einmitt mestrar þörf þegar efast er um merkingu og gildi alls og fólk
leitar logandi ljósi að hugmyndum sem kunna að vísa þeim veginn, forsendum til
að lifa eftir, forsendum sem gera því kleift að vera frjálst og bera ábyrgð á eigin
hugsunum og ákvörðunum. Fólk veit að tæknin og sá sýndarveruleiki sem hún
framleiðir stöðugt í daglegu lífi okkar býður ekki upp á slíkar forsendur, að þessi
sérkennilegi „veruleiki“ er ekki „tilgangur lífsins“ í sjálfum sér.
Vissulega kann sú spurning að vakna hvort það séu ekki trúarbrögð, fremur en
heimspeki, sem eigi að veita leiðsögn í glímunni við spurningarnar um hin hinstu
rök. En munurinn á trúarbrögðum og heimspeki, eins og hann kemur mér fyrir
sjónir hér og nú, er býsna augljós: Heimspeki er aðferð við að leita svara um merk-
ingu og grundvöll tilveru okkar, en hún veitir ekki þessi svör líkt og trúarbrögð
sækjast iðulega eftir. Sem stendur eru það ekki svör sem við þurfum á að halda,
öllu heldur þörfnumst við aðferða til að komast undan hinum ýmsu meintu svör-
um við stærstu spurningum okkar. Aðeins þannig veitum við okkur frelsi til að
hugsa um og yfirvega heiminn. Ráðandi tækni samtíma okkar leikur raunar hlut-
verk alltumlykjandi trúarbragða sem segja okkur hvað skiptir máli og hvað ekki.
Hún segir okkur að hafa engar áhyggjur og einbeita okkur að því sem við erum að
gera – í stað þess að vera gagnrýnin og reyna að komast að eigin niðurstöðum.
Það eru nokkur vandamál sem sigrast verður á ef heimspekin á að geta kvatt sér
Hugur 2013-4.indd 138 23/01/2014 12:57:30