Skírnir - 01.01.1929, Blaðsíða 124
118 Nibelungenlied og hetjukvæðin i Eddu. [Skirnir
IV.
Sögur þessar hafa nú brátt aukizt og margfaldazt, eftir
því sem lengra leið frá atburðunum. Brátt hefur þessum
tveim sögum verið skeytt saman, sögunni um Siegfried
(Sigurð) og Brynhildi og sögunni um Búrgunda og Húna
Hvenær það hefur orðið, er ekki unnt að segja, en víst
mun um það, að það hefur gerst ekki all-löngu eftir að
hvortveggja sagan myndaðist. Eftir þessa samsteypu hefur
sagan borist víða um lönd og verið breytt á ýmsa lund.
Hefur sagan frá upphafi verið að smáaukast og breytast,
fyrst í átthögum sínum, en síðan meðal þjóða þeirra, er
námu hana og varðveittu. En þar sem getið er um frum-
söguna i þessu máli, er átt við þá mynd, er sagan hafði
fengið áður en hún barst til Norðurlanda, Suður-Þýzkalands
o. s. frv., en eftir að Sigurðarsaga og sagan um fall Búr-
gunda og dauða Atla voru runnar saman, og er þó ekki
svo að skilja, að allar þessar þjóðir hafi fengið söguna sam-
tímis eða í sömu mynd.
Við samanburð á ýmsum myndum sögunnar og með
hliðsjón hinna sögulegu atburða, iná í flestum atriðum ráða
i, hvernig frumsagan hefur verið. En hér verður því nær
einungis litið á sagnmyndirnar í Eddukvæðunum og Nibe-
lungenlied.
Nöfnum aðalpersónanna hefur verið breytt í báðum
sögunum, en þó hafa þær báðar til samans varðveitt öll
sögulegu nöfnin. Á Norðurlöndum er Kriemhilde (Grímhildr)
orðin móðir þeirra systkina, en systirin nefnd Guðrún.
Nafnið á Gibica (Gjúka), föður þeirra, og Godomar (Goð-
ormi, Guttormi) hefur einnig varðveitzt hjá oss, en eru
gleymd í Nibelungenlied. Hagen (Högni) er orðinn einn
Gjúkasona.
Um ætt Sigurðar og æsku eru ýmsar sagnir, og þykir
við samanburð mega telja það víst, að þar sé Þiðrikssaga
frumlegust. Sigurður er að vísu konungborinn, en fæddur
að föður sínum látnum. Hann fæðist upp í skógi hjá ein-
setumanni (smið) og er mönnum þá ekki kunnugt ætterni
hans. í Nibelungenlied er þessu öllu breytt eftir smekk 12.