Skírnir - 01.01.1929, Blaðsíða 152
146
Nýskólar og nýskólahugmyndir.
[Skírnir
sagt, er það ekki nóg. Reynslan verður að leggja dóm sinn
á þessa skoðun. Spurningin, sem svara verður, er þessi:
Hvernig hefur þetta gengið?
Og ég held, að hlutdrægnislaust svar verði á þessa
leið: Það gengur eins og kennararnir eru menn til — eins
og í öllum skólum. Beztu nýskólarnir eru, að mínu viti,
yndislegur vaxtarstaður börnunum. Þeir lökustu eins og
lökustu skólar með eldra fyrirkomulagi, eða litlu betri.
Lélegir skólar eru yfirleitt hver öðrum líkir. Ég held, að
það þurfi miklu meiri vitsmuni, þekkingu og andlegt snar-
ræði til þess að stjórna vel nýskóla en gömlum skóla, að
sama skapi meiri sem það er t. d. torveldara verk að hafa
siðferðileg áhrif á einhvern með breytni sinni og persónu
en kenna honum siðaboð. En ég held jafnframt, að árang-
urinn geti orðið býsna glæsilegur. Þó er því ekki að neita,
að einnig í nýskólunum eiga mistök sér stað. Orsaka þeirra
mistaka verður að leita. Á eðli þeirra verður dómurinn um
nýskólana að byggjast. Og um nokkur þeirra mistaka má
segja það með óyggjandi vissu, að þau stafa af því, að
nokkrir af forystumönnunum hafa misskilið sum grund-
vallaratriði sjálfrar hugsjónarinnar, skort nógu djúpsetta
uppeldisfræðilega þekkingu, og þó ef til vill öllu fremur
brostið frjóleik og lagni til þess að hagnýta í starfi sínu
þann sálfræðilega efnivið, sem slíkir skólar veita í ríkari
mæli en aðrir skólar.
Vér skulum á ný taka frelsið til dæmis. Sumir hafa
boðað það sem markmið skólans. Það er það vitanlega
ekki. Það er starfsháttur og sá starfsháttur, sem bezt leiðir
í Ijós miðlægustu (central) eigindir barnsins og afstöðu
þeirra til hinna jaðarlægari (periferisk). Þetta fær auðveld-
lega dulizt, þótt talað sé við barn, það spurt út úr náms-
greinum, hlýtt yfir o. s. frv. Liggja til þess ýmsar orsakir,
og þær helztar, að hjá barni eru endurköllun skynjunar
(reproduktion) og framsögugeta harla ónákvæmar. En hjá
barni, sem er sjálfrátt að starfi sínu, leynir þetta sér aldrei
til lengdar. Og með nokkurri athugun má svo smámsaman
sjá, hvernig miðlægustu eigindir þess birtast á svæðum