Skírnir - 01.01.1942, Blaðsíða 44
-42
Ræða Periklesar
Skírnir
orðstír hennar er til, og hún ein vekur hvorki óvininum,
,sem gegn henni ræðst, gremju af því, hvernig sá er, sem
hann fer halloka fyrir, né kvörtun hinna undirgefnu, að
þeir lúti þeim, sem eigi er valdsins verður. Með miklum
táknum og eigi án vitnisburðar höfum vér sannað mátt
vorn, og bæði þeir, sem nú lifa, og þeir, sem eftir oss
koma, munu dást að oss; þurfum vér hvorki Hómer að
kveða oss lof, né neinn annan, er með ljóðum sínum kynni
að veita stundargleði, en sannleikurinn hrinda skoðunum
hans á atburðunum; því að vér höfum harðfengilega rutt
framtaki .voru braut um öll höf og lönd og hvarvetna reist
eilíf minnismerki ills í garð óvina, góðs í garð vina. Slík
er nú sú borg, er þessir menn börðust drengilega fyrir og
létu líf sitt, er þeir töldu það skyldu sína að láta ekki taka
hana, og er vel, að hver og einn þeirra, sem eftir lifa, sé
fús að þola þrautir hennar vegria.
Eg hefi'fyrir þá sök fjölyrt um borg vora, að eg vildi
sýna, að vér leggjum meira í hættu í leiknum en þeir, sem
ekkert eiga af þessu í líkum mæli og vér, og jafnframt
gera lofið um þá menn, er eg nú mæli eftir, augljóst með
sönnunum. Raunar er nú mest af því þegar sagt. Því að
dáðir þessara manna og þeirra líka hafa prýtt borgina
með því, sem eg lofaði hana fyrir, og eigi mundu orð og
athafnir margra Hellena vera í slíku jafnvægi sem þeirra.
En mér virðist dauði þessara manna sanna karlmannlega
hugprýði, hvort sem hún birtist þarna fyrst eða fékk síð-
ustu staðfestingu sína. Og um þá, sem í öðrum efnum
voru lakari menn,þá er rétt að líta fyrst og fremst á hreysti
þeirra í baráttunni fyrir föðurlandið, því að þeir afmáðu
illt með góðu og gagnið, sem þeir unnu ríkinu, var meira
en tjónið af einkalífi þeirra. Enginn þessara manna mat
nautn auðsins svo mikils, að það drægi úr honum duginn,
né lét sér til hugar koma að skjóta hættunni á frest í
þeirri von, er fátæktin vekur, að verða ríkur síðar með því
að flýja hana. Þeir töldu refsingu óvinanna æskilegri en
þessa hluti, áhættuna hina glæsilegustu og kusu því að
refsa óvinunum, en láta hitt eiga sig, í óvissri von um sig-