Skírnir - 01.01.1942, Blaðsíða 93
Skírnir
Njáls saga
91
Sænska skáldið A. U. Bááth komst svo að orði í ritgerð
um Njáls sögu — en sú ritgerð var prentuð fyrir rúmum
50 árum: „Njáls saga ber það með sér, að hún er verk
eins höfundar, og hefir hann haft söguefnið svo fullkom-
lega á valdi sínu, að kalla má, að hann hafi haft síðustu
málsgrein sögunnar í huga, er hann hóf að rita hina
fyrstu“. í þessum orðum er reyndar fólginn lykillinn að
leyndarmálinu um gerð og eðli Njáls sögu, þótt Bááth
sjálfum væri það ekki ljóst, nema að litlu leyti. Hvaðan
kemur höfundi sögunnar það vald á efni sínu, sem hér er
lýst? Hvers eðlis er það vald? Það er ekki vald fræði-
mannsins, sem ritar upp og færir í stílinn. Vald hans á
efninu kemur fram í því, að hann kann það vel, gætir þess
að rekja atriðin í réttri viðburðaröð, svo að ekkert rugl-
ist, og niðurlag sögunnar hjá honum táknar ekki annað
en það, að efnið er þrotið, og lýkur svo þessari sögu. Vald
Njáluhöfundarins á sínu efni er vald skáldsins, sem að
vísu hefir í huga röð atburða eins og fræðimaðurinn, en
sú röð atburða er allt annars eðlis en hin. Hún er eigið
verk skáldsins, þessi atburðaröð, jafnvel þótt atburðirnir
sjálfir, sem frá er greint, séu að einhverju leyti sannsögu-
legir. Höfundurinn, skáldið hefir skapað hana frá upphafi
til enda. Út úr fjölþættum og óskaplega flóknum og marg-
breytilegum atvikum mannlegs lífs les hann og vindur
saman einn örlagaþátt, einn þróunarferil, og rekur hann
til loka. Hann skapar eina rökræna heild úr mörgum þátt-
um, sem hefðu getað orðið söguefni hver í sínu lagi að
venjulegum hætti söguritunarinnar. í höndum Njáluhöf-
undarins tengjast margir slíkir þættir einni, fastdreginni
viðburðarás. Allt, sem ekki fellur að réttum rökum inn í
hana, kvíslast frá og þokar undan. Slíkum tökum tekur
enginn efni sitt nema skáld. Og verk eins og Njáls sögu
getur enginn ritað nema stórskáld. En afrek Njáluhöf-
undarins er því glæsilegra er þess er gætt, að Njáls saga
á engan sinn líka í fornum, íslenzkum bókmenntum, né
samtíma bókmenntum yfirleitt.