Skírnir - 01.01.1942, Blaðsíða 104
102
Þorkell Jóhannesson
Skírnir
hagga sínum skilningi á atburðunum. Hann hefir í sög-
unni allri sýnt okkur, hvernig Njáll, sem er vizkan og ráð-
leitnin sjálf, hefir alla ævi beitt vitsmunum sínum og djúp-
settu ráðum til þess að komast á svig við örlögin, reyna
með samningum, sættum og brögðum að sneiða hjá af-
leiðingunum af slysum þeim og hryðjuverkum, er hlaðizt
höfðu að vinum hans og ættmönnum. Barátta þessi hafði
reynzt árangurslaus og jafnvel verra en það. Þessi bar-
átta og reynsla öll hefir þroskað og sýrt hugsun hans og
það, sem á skorti, hafa áhrif kristinna trúarhugmynda
fullkomnað. Saga Gunnars og lífsreynsla sjálfs hans hafa
fært honum heim sanninn um það, að í sjálfu ofbeldis-
verkinu er fólgin íkveikja nýs ofbeldis. Hver sök krefst
bóta! Það eru örlögin sjálf, hörð og ósveigjanleg orsaka-
nauðsyn, — sem jafnvel nær út yfir dauðann. Synir hans
eru sekir. Hver tilraun til þess að víkja sér og þeim und-
an sektinni hefir þyngt hana stórum: Hér skal staðar
nema! Nú er nóg komið. I stað þess að freista að ganga
enn á svig við afleiðingar unninna óhappaverka, bregður
Njáll í fyrsta og síðasta sinn á annað ráð. í stað þess að
víkja sér undan högginu, gengur hann viljandi undir það,
slíðrar þennan brand, sem vofað hafði svo lengi og með
sívaxandi ógn yfir honum og sonum hans — slíðrar hann
í sínu eigin brjósti. Hér er hátindurinn í harmleik örlag-
anna, er vér köllum Njáls sögu. Kristinn og heiðinn dóm-
ur taka höndum saman yfir fórnarbálinu mikla. Því sög-
unni er engan veginn lokið. Með reykjarmekkinum, sem
leggur upp af brennandi rústum húsanna, berst eisandi
gneistaflug, er veggur hrynur eða hrapar úr þekju. í
skjóli reyksins og eldsins kemst Kári úr brennunni og
skilur þar milli þeirra Skarphéðins, skilur milli feigs og
ófeigs. — Þrátt fyrir allt eru það örlögin, sem sigra.
Þá er komið að III. og síðasta kafla. Báðir fyrri kafl-
arnir hófust með inngangsþætti, er var í senn forsögn og
aðdragandi nýrra atburða. Draumur Flosa skipar hér
sams konar sæti. Frásögnin hvílist. En jafnframt er bent
til þeirra atburða, er verða höfuðefni kaflans: viðureign-