Skírnir - 01.01.1929, Blaðsíða 132
126 Nibelungenlied og hetjukvæðin í Eddu. [Skírnir
þeirra. Þessi skylda var öllum öðrum ríkari. Það gat ekki
samrímst hugsunarhætti norrænna vikinga, að Guðrún léti
vega bræður sína í hefndarskyni eftir mann sinn. Frænd-
semisböndin voru ríkari en sifjarnar. Ketill úr Mörk varö
að fylgja bræðrum sínum í aðförinni við mága hans. Signý
lætur drepa syni sína og mann í föður- og bróðurhefndir
í Völsungasögu. Að visu kemur það fyrir, að frændsemi
verður að lúta fyrir öðrum hvötum, sbr. Sigrúnu í Völs-
ungakviðu fornu og bróðurvíg Eiríks blóðaxar, en afdrif
hans sýna og ljóslega, hvern dóm menn lögðu á slík verk,
eins og undirtektir Norðmanna síðar, þegar Sigurðr slembir
hafði látið myrða Harald gilla, er hann kallaði bróður sinn.
Það var því brýn skylda, er lá á herðum Guðrúnar,
og hefndin greypileg. Fyrst vegur hún syni þeirra Atla, til
þess að láta hann tæma bikarinn í grunn, en brennir hann
síðan sjálfan inni. Hér er komin önnur Guðrún en sú í
upphafi. Ekki hin sama, sem grætur Sigurð með krömdu
hjarta, en hyggur ekki á hefndir. Hér er hún óvægin sem
refsinornirnar. En hún vinnur ekki verkið eftir langa um-
hugsun um það, hvernig hún geti komið hefndinni fram
eða hvernig hefndin megi verða sem grimmilegust. Hún er
framkvæmd í grimmdaræði, þegar Guðrún hefur séð bræð-
ur sina svikna í tryggðum. Guðrún er þá örvita; þessi
grimmd á ekki djúpar rætur í eðli hennar.
Kriemhilde er lýst á annan veg. Hún hafði lifað í ham-
ingju og gleði þangað til ógæfan skall yfir og hún var
svift þeim, sem hún unni framar sínu eigin lífi. Skap henn-
ar, sem áður var blítt og barnslegt, harðnar þegar í stað;
hún verður að persónugervingi hefndarþorstans. Það kem-
ur berlega fram, að hefndarþorstinn verður strax ríkari en
harmurinn. Hún sættist að vísu við bræður sína, en ekki
við Högna. Hún fastræður að láta hann gjalda illræðisins,
enda er henni það auðveldara, þar sem hann er ekki bróðir
hennar í kvæðinu. Árin líða. Kriemhilde býr allt af yfir
hinu sama, þangað til hún skapar sér færi til hefnda. Hún
ætlar að vísu að láta hefndina koma fram á Högna einum,
en það aftrar henni ekki, þó að hún kynni að neyðast til