Studia Islandica - 01.06.1961, Blaðsíða 16
14
Af ummælum Stephans er bert, að hann sækir þingið
ekki vegna áhuga á kirkjufélaginu, heldur til að verja
málstað Parksafnaðar, ef á hann kynni að verða deilt. En
til þess kom ekki, enda lét Stephan lítið að sér kveða á
þingi þessu. Frá störfum þess er skýrt rækilega í riti
kirkjufélagsins, Sameiningunni (aukablaði með fyrsta
árg.). Er Stephan þar ekki orðaður við umræður né til-
lögur, en sæti átti hann í nefnd, er skyldi f jalla um hug-
mynd, sem fram hafði komið um sjóðstofnun. Enn frem-
ur var hann kosinn vararitari félagsins.1 Samkvæmt frá-
sögn Stephans sjálfs var stungið upp á honum til að
gegna starfi ritara, sem jafnframt var varaformaður.
Ekki er vitað, hverjir hlut áttu að þeirri uppástungu né
heldur, hve hart þingheimur lagði að Stephani, en hann
kveðst hafa þverneitað með þeirri forsendu, að félagsins
vegna yrði ritarinn að búa í Winnipeg í nágrenni við sr.
Jón Bjarnason, sem nú hafði verið kjörinn forseti.2
Þessi tilraun — að gera Stephan að forvígismanni í
kirkjufélaginu — má virðast undarleg. En af henni má
ráða, að trúarskoðanir hans hafa verið lítt kunnar, er
hér var komið sögu, enn fremur hitt, að traust hefur
verið til hans borið.
Ári síðar urðu prestaskipti í N-Dakota. Tók síra Hans
Thorgrímsen köllun frá Norðmönnum í Suður-Dakota,
en í stað hans kom síra Friðrik J. Bergmann frá Syðra-
Laugalandi í Eyjafirði. Þjónaði sr. Friðrik síðan í Da-
kota, þar til hann fluttist til Winnipeg 1902.3
Þegar sr. Friðrik gerðist prestur í Dakota, sameinuð-
ust söfnuðirnir þar aftur. Ný safnaðarlög voru samin,
og var Stephan fulltrúi Parksafnaðar við samantekt
þeirra. Virðist málamiðlun hafa tekizt svo, að flestir, er
áður voru í Parksöfnuði, gengu í hinn nýja söfnuð sr.
Friðriks. En hér fór Stephan ekki að dæmi annarra.
1) Sjá Sameininguna, aukablað með I. árg., 8. bls.
2) Sjá Bréf og ritg. IV, 87. bls.
3) Sbr. Sögu lsl. í N-Dak., 63. bls.