Studia Islandica - 01.06.1961, Blaðsíða 105
103
Stephan og sæmilegan kost bóka til lestrar. Fátt eitt eign-
aðist hann þó sjálfur af bókum, og það litla eyðilagðist
fyrir honum í flutningum, eftir að til Vesturheims kom.
Á þessum árum segist Stephan hafa lesið „ógrynnin
öll af ýmsum skruddum, mörgum skrifuðum,“ ... „auk
flests, sem nýtt kom út, eftir að ég kom í Víðimýrarsel.“1
Að þessum lestri hefur hann búið vel alla ævi, því að
löngu síðar verða margar af þessum sögum honum að
yrkisefni, þótt hann ætti þess ekki kost að rifja þær upp,
eftir að til Vesturheims kom. Um það farast honum svo
orð í einu bréfa sinna: „Ég las allar okkar fornsögur og
Eddur, þegar ég var innan við fermingarcddur, það sem
þá var til, síðan ekki við söguna meir. Ég hefi tórt á
því, sem í mér tolldi og rifjazt hefir upp.“2 Er mikil
gæfa, að Stephan skyldi, þrátt fyrir fátækleg kjör heima
fyrir, geta aflað sér slíks bókakosts til lestrar sem raun
ber vitni.
Meðan Stephan átti heima í Mjóadal, hlaut hann þá
einu skólagöngu, er hann naut á ævinni. Það var mán-
aðartilsögn í enskri tungu hjá sr. Jóni Austmann á Hall-
dórsstöðum í Bárðardal. Um það farast honum m. a. svo
orð: „Vel héldum við piltar okkur að lestrinum á Hall-
dórsstöðum. Lásum kvelds og morgna. Við lögðum af.
„Hvergi hefi ég orðið mat mínum fegnari. “ “ ... „Á
þessari ensku, slík sem hún var, fleytti ég mér þegar er
vestur kom hér um bil vandræðalaust.“ 3 Af þessari stuttu
skólagöngu Stephans og árangri hennar má ráða, hvers
af honum hefði mátt vænta, hefði honum auðnazt að
ganga menntaveginn. En það átti ekki fyrir honum að
liggja. Sjálfur segir hann svo frá: „Einu sinni heima, öðru
sinni hér, hefir mér boðizt ávæningur þess, sem gat verið
byrjun til skólagöngu, en ég hefi hafnað. 1 öðru sinni vor-
um við öll ráðin til vesturferðar, svo ekki varð við snúið.
1) Bréf og ritgerðir IV, 84. bls.
2) Bréf og ritgerSir I, 156. bls., sbr. og I, 167. bls. og I, 211. bls.
3) Bréf og ritgerðir IV, 102. bls.