Studia Islandica - 01.06.1961, Side 118
116
vafalaust vitað fátt með sanni, enda er jafnvel þekking
nútíma sagnfræðinga á honum harla fátækleg, eins og
þegar hefur verið sagt hér að framan. Einnig er óvíst,
hvort Stephan hefur þekkt nokkuð teljandi til kvæða
Kolbeins, þótt megnið af þeim sé enn varðveitt. Ekkert
var til á prenti eftir hann nema Vikusálmarnir, sem þá
hafa verið orðnir afar fágætir, og mörg af handritum
þeim, er geyma skáldskap hans, voru komin úr landi í
erlend söfn. Hugsanlegt er að vísu, að einhver af þeim
handritum með verkum Kolbeins, sem nú eru varðveitt
í Landsbókasafni, hafi borið fyrir augu Stephans í
æsku, en um slíkt verður ekkert fullyrt. Einnig kann
Stephan að hafa lesið eitthvað eftir Kolbein í uppskrift-
um, sem nú eru komnar í glatkistuna, en varla hefur
það verið mikið. En allar tilgátur um þetta eru gagns-
litlar. Og raunar skiptir það litlu máli, að því er varðar
sköpun kvæðisins, hvort Stephan hefur heyrt eða lesið
mikið eða lítið eftir Kolbein, þótt gaman væri hins vegar
að vita það. Stephan yrkir ekki kvæðið um Kolbein sem
sannsögulega persónu, heldur um Kolbein þjóðsagnanna,
þá persónu, sem íslenzk alþýða hafði smám saman skap-
að í hugarheimum sínum í þriggja alda meðförum. Verð-
ur síðar sýnt fram á, hvernig Stephan mótar þann efni-
við í höndum sér.
1 einu bréfa sinna segir Stephan sjálfur frá því, hví
hann valdi sér þetta yrkisefni, hvern kjarna hann fann
í frásögninni af Kolbeini. Hann skrifar svo: „Síðan ég
var piltungur heima og las sögurnar um Kolbein, hefir
mér oft hugsazt, að efni væri í honum, þeim sem með
kynni að fara. Hann var auðvitað ekki neitt skreytiskáld,
djöflatrúaður og forneskjukarl, en minningarnar um
hann sýna, hve áhrifamikill hann var, og satt að segja,
eins ógeðsleg eins og mér finnst djöflatrúin í kenningu,
ber ég samt virðingu fyrir mönnunum og þjóðinni þeirri,
sem hafði svo sterka trú á skáldskapnum, að þeir treystu
sér að ganga í greipar þess, sem þeir vissu og trúðu verst