Studia Islandica - 01.06.1961, Síða 144
142
virðist mér hann þó að ýmsu leyti síztur og um leið
torskildastur. Mér finnst, að frúnni sé að mestu leyti
ofaukið í kvæðinu, að Stephan hefði getað skýrt eðli og
tilgang Kölska á einfaldari hátt og í fastari tengslum við
aðalefni þess án tilkomu hennar. Síðari þættir kvæðisins
eru mjög fastmótaðir, efnisþráðurinn nær óslitinn, ein-
ungis skotið inn nokkrum vísum hér og hvar, þar sem
höfundur hugleiðir efnið. En þau innskot öll, með einni
undantekningu þó, er síðar skal bent á, eru svo nátengd
söguþræðinum, að ómissandi eru úr kvæðinu. Þau eru
órofa hluti af heildinni. 1 fyrsta þættinum er þetta nokk-
uð á annan veg. Hann er allur lausari í reipum, þó að
undanskilinni ræðu höfðingjans. Hjónabandssaga hans er
að vísu vel sögð og skemmtileg, en mjög laustengd sjálfu
kvæðisefninu. 1 þjóðsögunni var gefin skýring á því, hvers
vegna Kölski gekk að eiga konuna. Það var til þess að
eignast sál hennar eftir dauðann. 1 kvæðinu hafnar
Stephan að sjálfsögðu þeirri skýringu, þar sem hún var
ekki í samræmi við skoðanir hans, en hann gefur ekki
neina aðra í staðinn. Hann lýsir Kölska að öðru leyti sem
kænum erindreka, er vinnur markvisst að sínu ætlunar-
verki og lætur engan tíma fara til ónýtis. En á hvern
hátt þjónaði hjónaband hans og búhokur á Hornströnd-
um þeim tilgangi að afmenna þjóðirnar? Að vísu segir,
að Kölski hafi eitthvað verið að makka við Danskinn á
þessum búskaparárum sínum, en það er svo óljóst, að
ekkert verður af því ráðið um tilgang þess. Af þessum
sökum hefði kvæðið, að mínum dómi, orðið heilsteyptara,
ef hjónabandssögunni hefði verið sleppt. Þá hefði lýsing
Kölska öll orðið gleggri og trúverðugri.
1 næsta kafla kvæðisins, Á Kolbeinsstöðum, lýsir
Stephan Kolbeini og heimilishögum hans og segir frá því,
er Kölski kemur til þess að skora á hann að kveðast á
við sig. 1 sögninni í Islenzkum þjóðsögum og ævintýrum
er engin grein gerð fyrir þessu, en í þætti Gísla Konráðs-
sonar er, eins og áður var rakið, löng saga um vinnu-