Studia Islandica - 01.06.1961, Blaðsíða 117
115
minningu. Á 17. öld var galdratrúin í almætti sínu á ís-
landi, og benda líkur til þess, að Kolbeinn hafi sjálfur
lifað flestar, ef ekki allar þær galdrabrennur, er hér fóru
fram. Slík öld og þvílíkir atburðir hlutu að setja mark sitt
á hann sem aðra, enda er því ekki að leyna, að svo er.
Hann er hjátrúarfullur í ríkum mæli, trúir á myrkra-
höfðingjann í allri sinni makt, á galdra og gjörninga. En
Kolbeinn er kjarkmikill og áræðinn, bæði sem maður og
skáld, og kann vel að meta íþrótt sína og afl sitt. Hann
er svo djarfur, að hann yrkir um guðfræðileg efni löng
kvæði og fer með þau frjálslega og feimulaust, ólærður
maðurinn á klerkleg fræði, svo einarður og óttalaus, að
hann býður sjálfum höfðingja myrkranna birginn í ljóði.
Fyrir þessa dirfsku sína til orðs og æðis hefur Kolbeinn
hlotið allþunga dóma sumra eftirkomenda sinna, er lærð-
ari voru og öðrum augum litu á lifið og tilveruna en Kol-
beinn og samtíð hans. Nægir í því sambandi að benda á
ummæli þau, er prófessor Einar Ólafur Sveinsson tilfærir
eftir sr. Þorsteini Péturssyni á Staðarbakka í grein sinni
fyrir Sveins rímum Múkssonar.1 Hins vegar hefur öll al-
þýða manna kunnað vel að meta hið djarfa skáld, t. d.
kveður Guðmundur Bergþórsson svo um hann í einum
mansöng Olgeirs rímna danska:
Kolbeinn fróði Grímsson greindur
glans er vestursveita, o.s.frv.2
Og á vörum fólksins mynduðust um hann þjóðsögur, þar
sem hann var meðal annars látinn ganga á kvæðahólm
við sjálfan Kölska og bera sigurorð af honum í þeirri
íþrótt. Slíkt skáld var hann að dómi alþýðunnar.
Þegar Stephan G. valdi sér Kolbein Jöklaraskáld að
yrkisefni, voru það einmitt þjóðsögurnar um hann, sem
urðu tilefni kvæðisins. Um ævi hans og störf hefur hann
1) Sjá formála Sveins rímna, XXXII. bls.
2) Olgeirs rímur danska, 42. rima, 13. erindi.