Studia Islandica - 01.06.1961, Qupperneq 88
86
fram, einmitt af þeim gagnrýnanda, sem þekkti Stephan
bezt. En þess skyldi gætt, að engum þeirra var þvílíkur
vandi á höndum sem síra Friðriki, sem varla hefur geng-
ið þess dulinn, hver væri fyrirmynd prestsins í kvæðinu.
Auk þess er ekki að undra, þótt nokkurs kulda gætti frá
riti, er prestar kirkjufélagsins lútherska gáfu út.
1 Bjarka var bókarinnar fyrst getið 28. apríl, en rit-
dómur um hana birtist ekki fyrr en 23. júlí sama ár.1
Ritdómurinn er nafnlaus, og veit ég ekki, hvort hann er
eftir Þorstein Erlingsson eða Þorstein Gíslason, en þeir
voru þá báðir ritstjórar blaðsins. Af ýmsu má þó virðast
ólíklegt, að Þorsteinn Erlingsson hafi hér haldið á penna.
Ritdómur þessi er næsta tómlátur í garð skáldsins. Fjallar
meiri hluti hans um frágang bókarinnar, einkum letur-
breytingar textans. Þá er farið nokkrum viðurkenningar-
orðum um skáldskap Stephans, en gagnrýnandinn telur
kvæðabálkinn ekki jafnast á við hið bezta, er Stephan
hafi áður kveðið. Sú skoðun hafði raunar komið fram
áður, bæði í Þjóðólfi og Heimskringlu. Beztu tilþrif kvæð-
isins eru hér talin í mannlýsingum og náttúrulýsingum,
en hugleiðingar skáldsins taldar fremur daufar og ádeil-
urnar kraftlausar. „Aðalefnið er árás á íslenzku prest-
ana vestra," segir gagnrýnandinn. Þá segir hann rang-
lega, að kvæðin þrjú, Vögguvísur, Kanada og Kveld hafi
ekki verið prentuð áður. Eftir þessu að dæma hefur Bjarki
ekki fylgzt sem bezt með skáldferli Stephans. Vögguvísna
er hér ekki getið sérstaklega, en vissulega hefði Stephan
verið vel að því kominn að hljóta fyrir þær nokkra viður-
kenningu í blaði Þorsteins Erlingssonar.
Við lestur þessara ritdóma finnst glöggt, að flestum
er höfundunum mjög áfátt í skilningi á verkinu, enda þótt
þeir finni þar eitthvað við sitt hæfi og hrífist af því. Mun
meiri hrifningar gætir í flestu því, sem síðar hefur verið
um kvæðið skrifað. Meðal þeirra, sem næstir urðu til að
1) Bjarki, V. ár, 29. blað, 113. bls.