Studia Islandica - 01.06.1961, Page 61
59
Hér verður ekki komizt hjá að geta þeirra fyrirbæra,
sem ætla má, að hafi orðið Stephani efniviður beint eða
óbeint. Sumt af því, sem hér verður nefnt, er þó til-
gátur einar.
I fyrsta hluta ritgerðarinnar ræddi ég um skipti Steph-
ans við klerkavaldið vestra og taldi líkur til þess, að þau
skipti hefðu haft áhrif á skáldstefnu hans í fyrstu og
brýnt hann til að hefja merki hugsjóna sinna til fram-
haldandi baráttu í skáldskap sínum. Verður þessa fyrst
að geta, þegar rætt er um efniviðinn og áhrif á verkið,
því að Á ferð og flugi ber skýrar menjar þessara átaka,
og er ætlun mín, að þau hafi drjúgum stuðlað að sköpun
þess. Ýmis efnisatriði kvæðisins eiga rætur að rekja til
þeirra, enn fremur stafar þaðan hinn kaldræni ádeilu-
blær, er verkið hefur. En um þetta hefur þegar verið
fjallað, og gerist ekki þörf að endurtaka það hér.
Athugun á staðfræði kvæðisins leiðir í ljós, að atburð-
ir þess gerast einkum í tveimur landshlutum. Fyrstu frá-
sögunni er markað svið á sléttunni. Sléttan, sem sögu-
maður ferðast um, er með dreifðum byggðum, og þar
stendur allstór borg. Þessir staðhættir eru alls ólíkir
þeim, sem lýst er í næsta ferðaþætti. Hann gerist í fjöll-
óttum héruðum, lítt byggðum. Golden er því annar náma-
bær en hinn fyrri. Er það t. d. augljóst, þegar þess er
gætt, að hann hefur risið í skyndi, meðan gullleitin stóð
(,,á fám vikum bærinn svo spratt“, 27. bls.). Sögumað-
ur kemur þangað, þegar gullleitarmennirnir hafa fyrir
skömmu glatað allri von og yfirgefið staðinn, en þessi
ferðasaga gerist mörgum árum síðar en hin fyrsta. Frá
Golden er síðan haldið „austur og o’ná við“. Brátt kem-
ur fjallgarðurinn í ljós að baki hæðanna í vestri; og ferð-
inni er stefnt út á sléttlendið í austri. Frásögninni lýkur
í smáþorpi við járnbrautina eftir sólarhrings ferð. Þar
gerist lokaþátturinn einnig tveim árum síðar.
Þessir staðhættir minna í stórum dráttum á þá lands-
hluta, þar sem Stephan átti heima. Tímaröð atburðanna