Studia Islandica - 01.06.1961, Side 114
112
ráða, að Kolbeinn hafi verið bjargálna bóndi og nokkurs
metinn í sveit sinni. Hins vegar er hann oft nefndur síð-
astur dómsmanna, og kann það að eiga rætur að rekja til
þess, að hann hafi verið talinn þeirra virðingar- eða efna-
minnstur, eins og dr. Björn Sigfússon bendir á.1
Kolbeinn Grímsson var skáld allgott á sinnar tíðar
vísu. Liggja eftir hann bæði rímur og sálmar, auk ein-
stakra kvæða, andlegra og veraldlegra. Skal nú drepið
á það helzta, sem varðveitt er af kveðskap hans, en margt
af honum er nú vafalaust glatað með öllu.
Árið 1682 kom út á Hólum sálmakver eftir Kolbein.
Ber það titilinn: „Nockrer Psalmar sem syngiast meiga
Kvölld og Morgna vm alla Vikuna.“ Sálma þessa hefur
Kolbeinn ort út af bænabók eftir Jóhann Havermann.2
Þessi bók er nú afar fágæt orðin, en var ljósprentuð í
Reykjavík árið 1946. Auk Vikusálmanna liggja eftir Kol-
bein margir aðrir sálmar, óprentaðir í handritum, einnig
ýmis andleg kvæði. Lengst þeirra er Dýrðardiktur, eitt
lengsta kvæði íslenzkt. Það er stefjadrápa um höfuð-
atriði kristinnar trúar. Þá orti Kolbeinn Píslarminningu,
þar sem píslarsagan er rakin. Telur dr. Jón Þorkelsson
það síðasta kvæði sinnar tegundar hér á landi.3 Loks má
nefna kvæði, er nefnist Dæmaþáttur, þar sem rakin eru
dæmi um refsingar guðs.
Auk sálma og andlegra kvæða hefur Kolbeinn, að sinn-
ar aldar hætti, mest ort rímur. Hafa einar þeirra verið
prentaðar, Sveins rímur Múkssonar, er Rímnafélagið gaf
út í Reykjavík árið 1948. Herma þjóðsögur, að Kolbeinn
hafi sjálfur skáldað efni þeirra. Nú er hins vegar vitað,
að til var saga af Sveini munksins syni, sem nú er löngu
glötuð, en Kolbeinn hefur getað þekkt. Leiðir prófessor
Einar Ólafur Sveinsson ýmis rök að því í ritgerð sinni
1) Sjá Sveins rímur Múkssonar, formála, XXII. bls.
2) Sjá um sálma Kolbeins greinar dr. Björns Sigfússonar í Samtíð og
sögu IV, 190. bls., og í Afmæliskveðju til Halldórs Hermannssonar, 1. bls.
Sú grein er einnig prentuð í Árbók Landsbókasafnsins 1946—1947, 59. bls.
3) Om Digtningen pá Island, 96. bls.