Studia Islandica - 01.06.1961, Page 46
44
1 stefi, í elding, á busk eða í borg
eins birtist sú dýrlega sýn. —
Loks ber að minnast þess, að í lýsingu prestsins hér
í kvæðinu og í frásögninni af framkomu hans felst römm
ádeila á klerkastéttina og veraldarhyggju hennar. Þeg-
ar Á ferð og flugi birtist í fyrsta sinn, var því mjög á
loft haldið í gagnrýni, að meginhugsun kvæðisins væri
klerkaádeilur. Sá skilningur kom fyrst fram í ritdómi
Einars Hjörleifssonar í ísafold 6. janúar 1900, og sam-
sinntu þessu ýmsir, eins og síðar verður lýst. Stephan
neitaði, að frumhugsun kvæðisins væri gagnrýni á prest-
ana, þótt að vísu væri þar um ádeilu að ræða.1 Mun
fjallað nánara um þetta atriði í sambandi við mannlýs-
ingar kvæðisins.
Á ferð og flugi birtir einnig nokkra þjóðfélagsádeilu.
Þar beinir Stephan geiri sínum gegn auðþróuninni.
Merkustu ádeilukvæði hans af þessu tagi eru þó ort síð-
ar, og er það eðlilegt, þegar þess er gætt, að eðli og áhrif
auðþróunarinnar urðu skýrari á fyrstu áratugum 20. ald-
ar. En hér er afstaða Stephans til auðvaldsins skýr orðin
og stefna hans mörkuð. Má finna þessa vott nokkrum
árum áður, og þykir mér trúlegt, að skoðanir hans á þjóð-
félagsmálum hafi mótazt á Dakota-árunum. Þótt Stephan
væri bóndi fjærst í hinni „vestrænu óbyggð“ og háðari
sól og regni en auðjötnum Ameríku, fylgdist hann vel
með þessari þróun, og hún var honum ætíð mikið um-
hugsunar- og áhyggjuefni. Hún mun og hafa átt drýgst-
an þátt í, að hann aðhylltist sósíalisma eins og berlega
kemur fram í bréfum hans, einkum eftir heimsstyrjöld-
ina. 1 bréfi frá 1920 telur hann, að auðþróunin hafi leitt
sjálfa sig í þær ógöngur, sem hún muni ekki rata úr.
Sósíalisminn sé „eina hjálpin úr þeim hreinsunareldi,
sem mannheimur er staddur í.“2
1) Sbr. t. d. Bréf og ritgerðir IV, 282. bls.
2) Bréf og ritgerðir II, 213. bls.