Studia Islandica - 01.06.1961, Qupperneq 100
98
fyrir sköpun þess, orsökum hennar og aðdraganda, fyrir
þjóðsögunum, sem það er byggt á, efni þess og meðferð
höfundarins á þvi. Sömuleiðis verður talað um boðskap
þann, sem kvæðið hefur að flytja, drepið lítið eitt á ytra
búning þess og útgáfur, svo og gildi þess og stöðu meðal
verka Stephans.
Hér hefur verið stuðzt við ýmis rit, auk kvæðisins
sjálfs og þjóðsagnanna, sem það er byggt á. Skal nú
getið þeirra, er komið hafa að mestu liði. Fyrst ber að
nefna verk Stephans sjálfs, bæði kvæðasafn hans And-
vökur og þó ekki síður Bréf og ritgerðir. Þá hefur for-
máli prófessors Sigurðar Nordals fyrir Andvökum, úr-
valinu frá 1939, orðið að miklu liði, enn fremur fyrir-
lestrar prófessors Steingríms J. Þorsteinssonar um Steph-
an. Þá hef ég lesið fjölda blaða- og tímaritagreina um
Stephan og verk hans, sem of langt mál yrði að telja
upp hér. Ég hef líka haft mikil not af greinum dr. Björns
Sigfússonar um Kolbein Jöklaraskáld og verk hans (sjá
heimildaskrána). Margar fleiri bækur og ritgerðir væri
vert að nefna, en hér skal látið nægja að vísa til skrár-
innar yfir helztu heimildarit og bækur, sem til er vitn-
að í ritgerðinni.
Þar sem vísað verður hér til kvæðisins, verður vitn-
að í útgáfu dr. Þorkels Jóhannessonar af Andvökum.
Er það gert vegna þess, að hún er fullkomnasta útgáfa
Andvakna, sem til er, og auk þess í höndum fleiri manna
en frumútgáfan. Þar sem vitnað er til skýringa kvæðis-
ins, sem bæði komu í Heimskringlu og aftan við sérprent-
unina, er vísað til prentunar þeirra í Bréfum og ritgerð-
um, I. bindi. Er það gert vegna þess, að skýringar þessar
eru teknar upp úr bréfi frá Stephani til dr. Rögnvalds
Péturssonar, er hann skrifaði honum um leið og hann
sendi honum kvæðið til birtingar, þótti því rétt að vísa til
bréfsins sjálfs, enda vitnað líka til þess hluta þess, er
ekki var tekinn upp í skýringarnar. Bréf og ritgerðir
Stephans eru hér yfirleitt alls staðar lögð til grundvall-