Studia Islandica - 01.06.1961, Page 104
102
prestakalls hjá séra Hannesi Jónssyni, er þar þjónaði frá
1849—1873, að þau séu „allvel að sér“ og „skikkanleg".
Eins og vænta mátti af slikum foreldrum, kenndu þau
Stephani snemma að lesa og skrifa. Kom það í hlut móður-
innar að veita þá fræðslu. Annars mun Stephan þá þeg-
ar hafa lært mest af sjálfum sér, því að fróðleikslöngunin
var snemma rík og áhuginn mikill. Þegar hann er enn
tæpra fimm ára gamall, skrifar sr. Hannes Jónsson við
nafn hans í sóknarmannatal Glaumbæjarprestakalls árið
1858: „þekkir stafina". Tveimur árum síðar, þegar hann
flyzt burt úr prestakallinu, fær hann þennan vitnisburð:
„stautar seint en rétt, kann 5 boðorðin“. 1. júní 1868 var
Stephan fermdur, og gefur prestur honum svohljóðandi
vitnisburð: „les, kann og skilur réttvel, skikkanlegur".1
Síðasta umsögn sr. Hannesar er loks frá árinu 1870, er
Stephan flyzt til Bárðardals, er hann þá sagður „vel að
sér eftir aldri“ og „skikkanlegur“.
Stephan hefur í Drögum til ævisögu gert nokkra grein
fyrir bóklestri sínum í æsku. Á heimili hans var sökum
fátæktar aðeins til örfátt bóka, en hann átti þvi láni að
fagna, að í nágrenni hans í Víðimýrarseli voru tveir
,,bókamenn“. Voru. það þeir Jón Árnason á Víðimýri,
er hann kvað eftirmæli um, og Egill Gottskálksson á
Skarðsá, en um hann gerði Stephan þessa látlausu þakkar-
vísu:
Bernsku minni í bókaleit
bjargaði vit þitt fróða —
frá þér erfði okkar sveit
ævisögu góða.2
Við þessa menn kom Stephan sér svo vel, að honum voru
„allar þeirra bækur velkomnar".3 Einnig var lestrarfélag
starfandi í hreppnum. Eftir að til Bárðardals kom, átti
1) Svo í kirkjubðk Glaumbæjarprestakalls, en I kirkjubók Viðimýrar-
sóknar stendur: ,,les, kann og skilur réttvel, velgáfaður og skikkanlegur“.
2) Andvökur I, 87. bls.
3) Bréf og ritgerðir IV, 84. bis.