Studia Islandica - 01.06.1961, Page 25
23
prestana síra Magnús Skaftason, er áður var prestur
lúthersku kirkjunnar í Nýja Islandi, og síra Rögnvald
Pétursson, er tók við forystustarfinu árið 1903.
Ýmsar fleiri trúarstefnur og kirkjudeildir þróuðust
meðal Islendinga í Vesturheimi á þessum tíma, en ekki
er þörf að ræða um þær hér. Trúmáladeilur gegnsýrðu
andlega lífið, t. d. einkenndist blaðamennskan mjög af
þeim. Fylgdi Lögberg kirkjufélaginu lútherska, en Heims-
kringla var hliðholl þeim, sem frjálslyndari þóttu. Eins
var um öldina, sem Jón Ólafsson gaf út 1891—’92, en
þá sameinaðist hún Heimskringlu. Menn skiptust í flokka
fremur eftir trúarjátningu en stjórnmálaskoðunum.
Hverjum einstaklingi eða málefni var ómetanlegur styrk-
ur að því að eiga einhverju slíku flokksfylgi að fagna.
Þótt kirkjudeildirnar deildu hart innbyrðis, urðu þær hver
um sig nokkur lyftistöng meðlimum sínum. öllum var
þeim lítið um þá gefið, sem stóðu utan allra safnaða. Þau
málefni eða skoðanir, sem ekki voru á einhvem hátt
tengdar eða helgaðar kirkjumálum, áttu því of fáa for-
mælendur til að ná að þroskast og lifa. Þess vegna
fögnuðu þeir einstaklingar litlu brautargengi, sem áttu
ekki samleið með kirkjufeðrum og safnaðarstólpum.
Þessu aldarfari hefur Þorsteinn Þ. Þorsteinsson lýst
glögglega í riti sínu Vestmönnum. Leggur hann áherzlu
á, að hið íslenzka samfélag í nýlendunum hafi verið lítt
þroskavænlegt og hafi margir góðir drengir af þessum
sökum dáið andlegum dauða, orðið „blátt áfram úti í ís-
lenzkum skilningi hjá ráðríkum og valdölvuðum guðs-
mönnum og trúhræddri samtíð og prestsjúkri. Sumir
gerðust íslenzkir einsetumenn, en aðrir leituðu sér hælis
í ensku samfélagi, ef þeir gátu fellt sig við það, og hurfu
af íslenzku sjónarsviði kirkjudeilnanna og trúmálaofsans,
sem allt sogaði í sig. Verða þær sögur meðal hinna mörgu
í mannheimum, sem aldrei verða sagðar.“1
1) Sbr. Vestmenn, 179.—181. bls.