Studia Islandica - 01.06.1961, Síða 107
105
hverjum meðalmanni hefði reynzt ærið verkefni að inna
af höndum þau heimilis- og sveitarstörf, er Stephan varð
að annast. Þó er enn ótalið það, sem mest er um vert af
verkum hans, en það er skáldskapurinn. Skal nú í stórum
dráttum rakinn skáldferill hans, svo að ljóst megi verða,
á hvaða grundvelli Kolbeinslag er reist og hvern sess það
skipar meðal Ijóða hans. En það kvæði er svo nátengt
persónu hans, lifsreynslu og kjörum, að það verður aldrei
skilið né metið til hlítar, nema að gjörþekkja hann sjálf-
an, líf hans og störf.
Stephan hóf ungur að yrkja. Sjálfur kveðst hann ekki
muna, hvenær það var. Hagmælska var í ættinni, og auk
þess hefur allur sá skáldskapur, er hann las í æsku, orðið
honum hvatning til ljóðagerðar. Elzta vísan, sem prent-
uð er í Andvökum, er frá árinu 1868, þegar hann var
fermdur, en fyrr hefur hann verið farinn að fást við
kveðskap. ,,I Mjóadal kvað ég mestar vitleysur," segir
Stephan, „hafði samt reynt það löngu áður. Ef til vill
var það vegna þess, að þá las ég minna, færri bækur að
fá og margt lesið áður, en klúðra mátti saman hending-
um, hvar sem stóð.“1 Á þessum árum kvað hann meðal
annars „12 langlokur út af Víglundar sögu“,2 má kalla
það undanfara söguljóða hans. Einnig reyndi hann við
skáldsagnagerð. En allt þetta brenndi hann síðar, svo að
nú eru aðeins varðveittar örfáar vísur og smákvæði af
því, er hann orti hér heima á Islandi.
Frá. fyrstu árum Stephans í Vesturheimi, Wisconsin-
dvölinni, er einnig fremur fátt kvæða í Andvökum, mest
smáljóð og einstakar vísur. Nokkur viðauki er þó í síð-
ustu útg. (IV. bindi, 1958: Vökuauki), og vera má, að
sumu hafi þá verið fómað eldinum, eins og æskuljóðun-
um. Eftir að Stephan flyzt til Norður-Dakota, fer skáld-
skapur hans að glæðast nokkuð, þeim kvæðum að fjölga,
sem varðveitt eru, og gildi þeirra að aukast. Þó hefst að-
1) Bréf og ritgerðir IV, 92. bls.
2) Sama rit, 84. bls.