Studia Islandica - 01.06.1961, Qupperneq 131
129
mjög ólíklegt, að Stephan hafi nokkru sinni séð handrit
þetta, meðan það lá enn óprentað í fórum Ólafs læknis.
I Kolbeinslagi notar Stephan sögnina um það, að Fróðá
hafi verið farin að brjóta kirkjugarðinn, áður en Kol-
beinn lézt, og hafi hann beðið að jarða sig þar í garðin-
um, er áin syrfi fastast að, ef hann mætti nokkuð vera
þess megnugur í gröfinni að sporna við ágangi hennar.
Þá sögu hefur hann ekki þekkt annars staðar frá en úr
Lögbergsþættinum, ef röksemdafærslurnar hér að fram-
an eru réttar. Því er sýnt, að hann hefur notað þátt-
inn, er hann orti kvæðið. Einnig er sennilegt, að hann
hafi lært bragarháttinn Kolbeinslag af Lögbergi og þá
um leið sótt nafn kvæðisins þangað. Hann kann að vísu
að hafa heyrt eða séð háttinn áður, t. d. hafi hann lesið
áðurnefnda grein Sighvats Grímssonar Borgfirðings í
Tímariti Bókmenntafélagsins. Alls óvíst er þó, að hann
hafi átt eða lesið það rit, því að bókakostur hans var
ætíð mjög knappur, eins og áður hefur verið getið. Einn-
ig er hugsanlegt, að Stephan hafi í æsku heyrt eða lesið
einhverjar vísur undir þessum hætti, en úr því mun vart
fást skorið héðan af.
Úr því að Stephan notar Lögbergsþáttinn að nokkru
leyti til kvæðisgerðarinnar, vaknar sú spurning, hvort
ekki sé líklegast, að hann hafi einmitt orðið tilefni þess,
að kvæðið var ort. Hugsanlegt má það kallast, en þó álít
ég, að svo hafi ekki verið, því að það er harla ósennilegt,
að hann hefði sagzt hafa notað tímann, er hann meiddi
sig, seint í nóvember eða í desemberbyrjun, til þess að
„skafa upp og skrifa“i1 Kolbeinslag, ef hann hefur ekki
byrjað á því fyrr en eftir 30. október, er þátturinn var
prentaður. Kvæðið er líka svo mikið verk, að ólíklegt er,
að það hafi ekki verið meira en sex eða sjö vikur í smíð-
um, frá því hugmyndin að því fæddist til þess því var
lokið að fullu.
1) Bréf og ritgerðir I, 341. bls.
9