Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 8
FRÁ SVEITABÆNUm Að STAFRÆNU BYLTINGUNNI
7
endurgreiddur til framleiðenda. Í fyrstu var hlutfallið 12%, en það þokaðist
upp í 14% árið 2006. Þremur árum síðar var talan orðin 20% og hún hækk-
aði svo í 25% árið 2016.12 Frá upphafi fól lagaákvæðið í sér gagngera um-
byltingu á stuðningi ríkisins við kvikmyndagerð á Íslandi, en umskiptin eru
tvíþætt. Annars vegar reiknast framleiðslustyrkur úr Kvikmyndasjóði ekki til
frádráttar, heldur bætist endurgreiðslan við slíkt framlag. Hins vegar er ekki
gerð krafa um að viðtakendur endurgreiðslunnar séu íslenskir kvikmynda-
gerðarmenn, eða kvikmyndaverkið sem unnið er að íslenskt, heldur aðeins
að það sé í heild eða hluta tekið og framleitt hér á landi. Sérstök ákvæði
eru í lögunum er lúta að þessu atriði, og eru þar tiltekin gildisviðmið er
leyfa stuðning við erlenda kvikmyndaframleiðslu. Gildisviðmiðin snúa ann-
ars vegar að kynningargildi viðkomandi kvikmyndar fyrir íslenska menn-
ingu, sögu og náttúru, og hins vegar að þekkingar– og reynslumiðlun til þess
starfsfólks í íslenskum kvikmyndaiðnaði er að framleiðslunni kann að koma,
gjarnan þá sem tæknifólk eða aðstoðarfólk lykilaðstandenda viðkomandi
kvikmyndar.13 Erlend kvikmyndaverkefni eru mikilvæg atvinnuskapandi
tækifæri fyrir íslenskt fagfólk og var því hér mikilvægt lóð sett á vogarskálar
samfelldrar starfsemi innlendrar kvikmyndagerðar.
Þá er ein stærsta breytingin sem átt hefur sér stað á íslenskri kvikmynda-
gerð frá árþúsundamótunum aukin fjölbreytni í fjármögnun, og aukin tæki-
færi til að sækja fjármagn utan landsteinanna. Á tíunda áratugnum tekur
alþjóðleg samvinna að færast í aukana. Ísland undirritar „Evrópusamning
um samframleiðslu kvikmyndaverka“ árið 1992. Sama ár var Eurimages sett
á laggirnar, sjóður sem starfar á vegum Evrópuráðsins og styrkir samfram-
leiðslu á evrópskum kvikmyndum og heimildarmyndum.14 Norræni kvik-
mynda– og sjónvarpssjóðurinn var stofnaður tveimur árum fyrr og hefur
12 Sjá „Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi“, 1999
nr. 43 22. mars, Althingi.is, sótt 1. september 2019 af https://www.althingi.is/lagas/
nuna/1999043.html. Sjá einnig Ásgrímur Sverrisson, „Hvernig Tom Cruise og Ben
Stiller færa Íslandi björg í bú“, Klapptre.is, 25. nóvember 2013, sótt 1. september
2019 af https://klapptre.is/2013/11/25/greining-hvernig-tom-cruise-og-ben-still-
er-faera-islandi-bjorg-i-bu/.
13 Í annarri grein laganna er tekið fram að „heimilt [sé] að endurgreiða úr ríkissjóði
hlutfall af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjón-
varpsefnis hér á landi“, og í fjórðu grein laganna er þau viðmið nefnd „að viðkom-
andi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu
lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni
reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa]. „Lög
um tímabundnar endurgreiðslur“, Althingi.is.
14 Hér má benda á vefsvæði Eurimages, https://www.coe.int/en/web/eurimages.