Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 239
HJALTI HugASOn
238
aftur á móti að píetisminn virðist heldur ekki hafa breytt miklu í þessu efni
á áhrifaskeiði sínu á 18. öld en víða erlendis efldi hann mjög athafnasemi
kirkjunnar á sviði velferðar. Hér voru vissulega stofnaðir tveir barnaskólar í
anda hans, í Vestmannaeyjum og að Hausastöðum á Álftanesi. Í fyrrnefnda
tilvikinu skipti máli að eyjarnar heyrðu beint undir konung. Í síðara tilvik-
inu var um einangrað einstaklingsframtak Jóns Þorkelssonar (1697–1759)
fyrrum skólameistara í Skálholti og fylgdarmanns L. Harboes að ræða en
Jón fylgdi píetismanum að málum.130
Langtímaáhrif lútherskrar kirkju á mótun nútíma velferðarkerfis og þá
einkum í hinni sérstöku norrænu mynd er svo sérstakt viðfangsefni. Það
lýtur þó aðeins óbeint að lútherskum siðbótaráhrifum þar sem þróun þess
í þröngum skilningi hófst hér ekki fyrr en eftir lok hins lútherska tímabils
(þ.e. eftir 1874). Þá er hugmyndafræðin sem norræna velferðarkerfið byggir
á í grundvallaratriðum önnur en sú sem réð ferðinni á sviði fátækramálefna
fyrr á öldum. Fátækraframfærsla á vegum hreppanna miðaði lengi aðallega
að því að sem flestir gætu að mestu séð sér og sínum farborða þótt þeir
þyrftu nokkurn stuðnings hreppsins til þess. Hlutverk hreppanna var eink-
um að forða því í lengstu lög að heimili leystust upp, fólk færi á vergang og
yrði alfarið byrði á öðrum. Eftir að heimili féllu niður fyrir þau fátækramörk
tók við nær ótakmarkað vald hreppstjóra til að leysa upp fjölskyldur og koma
hverjum og einum fyrir þar sem best þótti henta. Fyrst og fremst var því um
samtryggingarkerfi að ræða sem ætlað var að spara bjargálna hreppsbúum
útgjöld til fátækra sem mest mátti verða.131 Kærleiksþjónusta kirkjunnar
byggðist aftur á móti á hugmyndinni um kristilegan kærleika sem fól í sér
að sá sem var aflögufær ætti að deila þeim gæðum með öðrum. Fyrir siðbót
var sú hugsun algeng að með ölmusugæðum öðlaðist fólk velþóknun guðs
og réttlætingu. Siðbótarmenn höfnuðu þeirri hugmynd. Þeir lögðu áherslu
á að samfélagsleg ábyrgð fólks sem m.a. kæmi fram í góðgerðum við aðra
væri kristileg dyggð og ávöxtur trúarinnar en ekki verk sem mögulegt væri
að hafa ávinning af frammi fyrir guði. Velferðarhugsjón síðari alda byggir
hins vegar á þeim skilningi að sérhver einstaklingur eigi rétt á mannsæmandi
kjörum og tengist þannig mannréttindasjónarmiðum.
Saga Íslands VII, ritstj. Sigurður Líndal, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag,
Sögufélag, 2004, bls. 1–211, hér bls. 96–97, 146–149.
130 Einar Laxness, Íslandssaga a–h, bls. 61.
131 Sjá guðmundur Jónsson, „Hjálp til sjálfshjálpar: Borgaralegar rætur velferðarríkisins
á Íslandi“, Menntaspor: Rit til heiðurs Lofti Guttormssyni sjötugum 5. apríl 2008,
Reykjavík: Sögufélag, 2008, bls. 371–393, hér bls. 374–375.