Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 10
FRÁ SVEITABÆNUm Að STAFRÆNU BYLTINGUNNI
9
Samhliða ofangreindum breytingum – og að sumu leyti í krafti þeirra
– hefur fagmenning íslenskrar kvikmyndagerðar breyst. Innan greinarinnar
hefur í auknum mæli samfelld atvinna boðist, sem er grunnforsenda fyrir
stöðugleika þekkingar og vöxt í formi reynslu og kunnáttu, sem og viðhaldi
á mannauði, en hvort tveggja hefur viljað glatast þegar fólk reynist ekki til-
búið til að sætta sig við stopula atvinnu og tekjur. Stór fyrirtæki hafa verið
sett á laggirnar á umliðnum fimmtán árum sem sinna framleiðsluþjónustu
við erlend kvikmyndaverkefni, má þar nefna True North og RVK Studios.
Jafnframt er hér mikilvægt að hafa í huga uppgang framleiðslu leikins efnis
fyrir sjónvarp, sem og auglýsingagerð. Breytingar á sviði auglýsingagerðar
sem Naomi Klein hefur rakið í bók sinni No Logo, en hún kom einmitt út
1999, snúast um tilfærslu í efnistökum auglýsinga þar sem horfið er frá
vörumiðaðri upplýsingamiðlun í átt að lífsstílssögum og hughrifavekjandi
örmyndum sem leitast við að tengja vörur, sem sjálfar koma lítt við sögu
í sjálfri auglýsingunni, við afstrakt hugmyndir, líðan, hugsjónir eða gildi.19
Áherslubreytingin felur í sér ólíka og „kvikmyndalegri“ nálgun á auglýsinga-
formið, og þótt þessi aðferð hafi ekki borist til Íslands um leið gerði hún það
að lokum, og hefur því auglýsingagerð í auknum mæli reynst þjálfunarvett-
vangur fyrir fólk sem síðar leitar starfa í eiginlegri kvikmyndaframleiðslu.20
Þá er rétt að huga að samlegðaráhrifum annars vegar ólíkra sviða sam-
félagsgerðarinnar á borð við tækniþróun og breytingar í fagmenningu, eins
og stefnumiðum sem greina má hjá hinu opinbera, og svo hins vegar afleidd-
um áhrifum sem ekki eru með beinum hætti fyrirséð eða hluti af ætluðum
áhrifum stefnumiða. Ber þar að nefna menntastefnu og hlutverk LÍN, en
ekki væri eðlilegt að telja áhrifin sem menntunartækifæri erlendis hafa haft á
innlenda kvikmyndagerð sem beinlínis ætluð. Það er hins vegar staðreynd að
frá því um árþúsundamótin hefur það mjög færst í aukana að ungt fólk sækir
sér menntun í kvikmyndagerð erlendis, og á það við um öll svið kvikmynda-
gerðar. Að sama skapi verður breytingin sem stafræna tæknin hefur haft á
19 Naomi Klein, No Logo: Taking Aim at the Brand Bullies, London: Picador, 1999.
Sjá einnig Adam Arvidsson, „Brands: A Critical Perspective“, Journal of Consumer
Culture, 5/2005, bls. 238–245.
20 Hér er umfjöllun Emily Nussbaum, sjónvarpsgagnrýnanda bandaríska vikuritsins
New Yorker, um samþættingu, jafnvel samruna, kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu
og auglýsingagerðar afar forvitnileg, en meðal þess sem Nussbaum fjallar um er
hversu óljós mörkin eru orðin milli framleiðslu á frásagnarlegu myndefni og svo
auglýsingagerð. Emily Nussbaum, „What Tina Fey Would Do for a SoyJoy: The
Trouble with Product Integration“, I Like to Watch, New York, Random House,
2019, bls. 498-536 (blaðsíðutal miðar við e-pub rafbók).