Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Side 71
BjöRN ÞóR VilHjálMSSoN
70
skoða sem dæmi um það hvernig merking menningarafurða mótast í við-
tökuferlinu, og jafnframt að viðtökurnar sjálfar séu mótaðar af flókinni sögu
er tekur jafnt til samspils þjóðfélagsaðstæðna, siðferðis og gildismats, auk
tækniþróunar. Þannig verður því haldið fram að með tilkomu bannlistans
hafi ný kvikmyndagrein orðið til á Íslandi, bannlistamyndin, en ólíkt flestum
hefðbundnum kvikmyndagreinum sé hún aðeins merkingarbær þegar litið
er til virkni hennar í samfélagsumræðunni. Það er að segja, bannlistamyndir
tengjast innbyrðis í krafti þeirrar stöðu sem bannið skipar þeim í – og bannið
sem slíkt endurspeglar flóknar menningarlegar og samfélagslegar átakalínur.
Bannlistinn er áþreifanleg birtingarmynd ritskoðunarvalds hins opinbera en
um leið dregur hann fram þann hugmyndafræðilega ramma sem grundvallar
og löghelgar ritskoðunarvaldið. Má því ætla að rannsókn á umræðunni um
bann á ofbeldismyndum, bæði í aðdraganda lagasetningarinnar og í kjölfar
hennar, veiti innsýn í samspil hugmyndafræðilegra og fagurfræðilegra við-
miða og samfélagslegra stofnana og menningarneyslu, auk þess sem þekk-
ingu megi jafnframt öðlast á stöðu kvikmyndarinnar sem miðils og listforms
í íslensku samfélagi á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar.
Kvikmyndaeftirlit á Íslandi á sér eins og áður segir sögu sem spannar
lungann af liðinni öld, og mun fyrsti hluti greinarinnar draga upp mynd
af forsögu bannlistans, bæði hvað varðar íhlutun yfirvalda og almennar
áhyggjur af spillingarmætti kvikmynda. leiðir þetta að umræðu um bann-
listann sjálfan, tilkomu hans og stofnanalega umgjörð, og verður hér einkum
staldrað við hugtakið „ofbeldismynd“, og þá gætt annars vegar að réttar-
farslegri virkni þess í hegningarlöggjöfinni og hins vegar virkni þess sem
kvikmyndasögulegs hugtaks. Í næsta hluta verður hin opinbera orðræða sett
í samhengi við umræðuna í samfélaginu og sýnt hvernig skilgreining lög-
gjafans á ofbeldismynd tekur á sig nýja og flóknari mynd um leið og merking
hugtaksins verður umdeildari og fleiri taka þátt í að skilgreina og móta það.
Í þessu sambandi verður lykiltáknmynd bannlistans skoðuð sérstaklega, en
það er ítalska kvikmyndin Cannibal Holocaust (Ruggero Deodato, 1980). Að
lokum verða niðurstöður greinarinnar dregnar saman í niðurlagi.1
1 Skjalasafn Kvikmyndaeftirlitsins frá ofanverðum níunda áratugnum og fram yfir
árþúsundamótin er varðveitt á Þjóðskjalasafninu. Þar er að finna mikinn fjölda af
skýrslum um skoðanir á einstökum kvikmyndum, þar á meðal nokkrum sem voru
bannaðar, auk fundargerðarbóka og gagna af öðru tagi. Skjölin sem eru varðveitt
tilheyra flest tímabilinu sem í hönd fer þegar þessari grein lýkur, og því er ekki vísað
svo nokkru nemi í þessar heimildir. Skjalasafnið veitir hins vegar afar forvitnilega
innsýn í starfsemi eftirlitsins og full ástæða er til að vekja athygli á þessum heimilda-
forða.