Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Síða 286
FRæðAMöRK
285
markmið Einars Más? Myndi það bæta verkið til muna ef ónákvæmni af
fyrrgreindum toga væri lagfærð eða lýtur samfélagsrýni skálds öðrum lög-
málum hvað þetta varðar? Hvað sem því líður er víst að bókin er gædd meiri
töfrum og tilfinningum en meðaltextar háskólasamfélagsins. Auk þess er
hún beittari en flest skrif sem þaðan eru runnin, enda ekki laus við „pólitísk
sjónarmið sem forðast verður í fræðilegri greiningu“.36
Sé rétt hjá Janet E. Johnson o.fl. að bók Guðna Th. um Hrunið sé
ófræðileg þá er hún það að hluta til með öðrum hætti en Hvíta bókin. Látum
þetta gott heita um markalínur milli fræðilegra og ófræðilegra greininga á
kreppunni og skoðum næst að hvaða leyti fólk úr ólíkum vísindagreinum
nálgast viðfangsefnið á mismunandi hátt.
Markalínur milli fræðigreina
Stundum er litið svo á að fræðamörk séu ‚náttúruleg‘, að innan hverrar
fræðigreinar sé sérstakri aðferð beitt á afmarkað viðfangsefni sem skilji hana
nokkuð skýrt frá öðrum greinum vísinda og að þær skarist að takmörkuðu
leyti. Í þeim tilfellum þegar fræðafólk veltir fyrir sér mörkum eigin fræða og
annarra er það ósjaldan tengt hugmyndinni um þverfræðilega samvinnu.37
Undirliggjandi forsenda slíkra samstarfshugmynda er hins vegar að fræða-
mörk séu nokkuð glögg. Þau geri það að verkum að sjónarhorn stakrar
vísindagreinar sé takmarkað og að margslungin viðfangsefni útheimti því
stundum samvinnu fræðigreina. Slíkt samstarf dregur þó ekki endilega skýr-
ar markalínur vísindagreina í efa. vísindasagnfræðingur minnir okkur þó
á „að markalínur milli vísindagreina eru hvorki skýrar né fyrirfram gefnar,
heldur mannanna verk“.38 Og í formála að greinasafni um Björgu C. Þor-
láksson vekur mannfræðingur máls á því að „fram undir miðja tuttugustu
36 Alda Björk valdimarsdóttir og Guðni Elísson, „‚Og eftir sitjum við með sektar-
kennd í brjósti‘. Hallgrímur Helgason og íslenska efnahagshrunið“, Ritið 2/2012,
bls. 169–197, hér bls. 170.
37 Um þverfræðileika sjá t.d. Julie T. Klein, Interdisciplinarity. History, Theory, and Prac-
tice, Detroit, MI: Wayne State University Press, 1990; vilhjálmur Árnason, „Sen-
sible Discussion in Bioethics. Reflections on Interdisciplinary Research“, Cambridge
Quarterly of Healthcare Ethics 3/2005, bls. 322–328; óbirt erindi Gunnars Harðar-
sonar, „Þróunarbrautir og þvergirðingar. Um hindranir og hugtök í þverfræðilegu
samstarfi“ (á Háskólafundi H.Í. 18.2.2005); Uskali Mäki, „The Philosophy of Int-
erdisciplinarity. What? Why? How?“, European Journal for the Philosophy of Science
3/2016, bls. 327–342.
38 Þorsteinn vilhjálmsson, Heimsmynd á hverfanda hveli, 1. bindi, Reykjavík: Mál og
menning, 1986, bls. 54.