Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 31
BjöRn ÆGIR nORðFjöRð
30
að mestu leyti sjálfir þrátt fyrir tilkomu Kvikmyndasjóðs var áhættan oftast
nær á þeirra eigin herðum. Þannig að ef kvikmynd gekk illa í miðasölu sátu
kvikmyndagerðarmenn sjálfir uppi með tapið og áttu óhægt um vik með
frekari fjármögnun. Það blés því ekki byrlega fyrir íslenskri kvikmyndagerð
í lok níunda áratugarins.
Loks ber að geta þess að á miðju kvikmyndavorinu áttu sér stað stórkost-
legar breytingar á sýningarhaldi kvikmynda, þar sem með tilkomu Regn-
bogans árið 1977 byrjuðu fjölsalabíó smátt og smátt að taka yfir markaðinn,
auk þess sem eldri einsala kvikmyndahús bættu við smærri sölum. Með
opnun Bíóhallarinnar í Mjóddinni árið 1982 tók sýningarhald samfara að
færast úr miðbænum yfir í úthverfin, og nú er svo komið að fyrsta fjölsala-
bíóið, nú undir nafninu Bíó Paradís, er eina kvikmyndahúsið sem eftir lifir í
miðbænum. Það er áhugavert að þessi ameríkuvæðing á sýningarhaldi skuli
eiga sér stað í miðju hins mjög svo þjóðlega kvikmyndavors þótt þarna hafi
sýningarhald einfaldlega fylgt breyttum alþjóðlegum áherslum.
10. áratugurinn: Þverþjóðleg kvikmyndagerð
Það var tilkoma erlendra kvikmyndasjóða, einkum Eurimages sjóðs Evrópu-
ráðsins, norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins auk MEDIA áætlunar
Evrópusambandsins, sem kom íslenskri kvikmyndagerð til bjargar. Á meðan
þorri mynda níunda áratugarins hafði að fullu verið fjármagnaður hérlendis
heyrði það til undantekninga á þeim tíunda ef fjármagn íslenskrar myndar
var ekki að stórum hlut sótt til alþjóðlegra sjóða og erlendra samframleið-
enda. Kvikmyndasjóður gegndi þó ennþá lykilhlutverki því án vilyrðis frá
sjóðnum var ekki hægt að leita frekari styrkja. Þetta breytta fjármálaum-
hverfi íslenskra kvikmynda átti eftir að gerbreyta íslenskri kvikmyndagerð.
Á níunda áratugnum höfðu öll viðmið verið þjóðleg: staðbundnum sög-
um (margar sóttar í bókmenntaverk), oft með áherslu á sveitina, var miðlað
til íslenskra áhorfenda. Hin dæmigerða mynd tíunda áratugarins gerðist
hins vegar oft jafnt erlendis sem hérlendis, tók mið af fagurfræði evrópsku
listamyndarinnar og var ekki síður gerð með erlenda áhorfendur og sýn-
ingar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum að leiðarljósi. Þótt greina megi vísi
að þessum alþjóðlegu áherslum í víkingaþríleik Hrafns Gunnlaugssonar, var
þar fyrst og fremst um að ræða tveggja þjóða samstarf Íslendinga og Svía, og
að frátöldu Ryði (1990) voru kvikmyndir Lárusar Ýmis Óskarssonar sænskar
að öllu leyti. Það er kvikmynd Friðriks Þór Friðrikssonar Börn náttúrunnar
(1991) sem innleiðir þessi umskipti umfram aðrar myndir. Fagurfræðilega