Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Síða 223
HJALTI HugASOn
222
öld og þá í anda píetismans. Á þeim tíma tókst að brjóta dansana á bak aftur
þannig að hér á landi fóru sjálf danssporin og annað atferli við þjóðdansa
forgörðum öfugt við það sem gerðist t.d. í Færeyjum. Aðstæður til að efna til
dansleika og annarrar gleði voru þó nokkuð aðrar hér á landi en erlendis þar
sem þéttbýli var meira og loftslag hliðhollara til skemmtanahalds utandyra.
Harðnandi árferði, sóttarfar, fámenni, minnkuð húsakynni og fleiri óhag-
stæðar ytri aðstæður á 18. öld geta því hafa vegið þungt í þessu sambandi.59
Að svo miklu leyti sem mögulegt er að finna kirkjulega áhrifavalda í þessu
sambandi er tvímælalaust fremur um píetismann en siðbótina að ræða. Hér
virðist því í hæsta lagi mögulegt að ræða um afleidd siðbótaráhrif.
Samfélagsleg áhrif siðbótarinnar
Víða erlendis höfðu siðbótarhreyfingar 16. aldar margháttuð samfélagsáhrif
í bráð og lengd. Má t.a.m. benda á að í klassísku riti, Die protestantische Ethik
und der Geist des Kapitalismus, setti félagsfræðingurinn Max Weber (1864–
1920) fram þá kenningu að upphaf kapítalisma síðari alda mætti rekja til sið-
bótarinnar og þá einkum hinnar reformertu eða kalvínsku greinar hennar.60
Í þessum kafla eins og annars staðar í greininni verður þó látið við það sitja
að velta vöngum yfir áhrifum siðbótarinnar hér á landi. En öfugt við þá
breytingaþróun sem víða var uppi á árnýöld einkenndist íslenska samfélagið
fremur af kyrrstöðu.
Í þessum kafla verður sérstaklega látið reyna á þá túlkun sem hér framar
var lýst sem kirkjulegri andstæðu Aldasöngs-syndrómsins og felst í að þau
fyrirbæri sem hvað jákvæðust eru talin í nútímavæðingunni — vestræn lýð-
ræðissamfélög og þá ekki síst norrænu velferðarsamfélögin — eigi rætur að
rekja til áhrifa Lúthers og siðbótarinnar. En þau einkennast af menntun,
jafnræði og þátttöku borgaranna. Fyrst verður vikið að tengslum ríkis og
kirkju, þá þeirri samfélagsgerð sem hér var við lýði í kjölfar siðbreytingar,
áhrifum siðbótarinnar á stöðu kvenna sem og löggjöf á sviði hjúskapar- og
kynferðismála. Í lok kaflans verður svo vikið að áhrifum siðbótarinnar á sviði
59 Jón Samsonarson, „Íslenzkir dansleikir: Inngangur“, Kvæði og dansleikir, Jón
Samsonarson gaf út, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1964, bls. ix–cclii, hér bls.
ccxxxviii–ccxxxix. Árni Björnsson, „Lúther og lífsgleðin“, Lúther og íslenskt þjóðlíf:
Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni
þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans, ritstj. gunnar Kristjánsson o.a., Reykjavík:
Skálholt, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 153–171.
60 Max Weber, The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism, ensk þýð. Talcot Parsons,
London: unwin university Books, 1970.