Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 268
„ÞANNIG ER SAGA OKKAR“
267
hann ætlaði að vera kaupmaður á Íslandi en varð loks byltingarmaður. Hann
verndaði föðurland sitt í stríði Dana við Breta, en var ákærður fyrir landráð.
Hann steypti Dananum Trampe greifa af stóli og ruddi Bretum braut að
hertaka Ísland, en Bretar vildu fremur hlusta á Trampe og vísuðu Jörgen úr
landi. „[T]alið var að Jörgen Jörgensen gengi jafnvel lengra en hinir bylt-
ingarsinnuðu Frakkar“ (195) og samkvæmt þeirri túlkun var Jörgen mesti
og róttækasti demókrati nítjándu aldarinnar, en bylting hans misheppnaðist
samt – sá upplýsingarandi sem Jörgen hafði að leiðarljósi brást, af því að
„[þ]egar Napóleonsstríðum lauk nokkrum árum síðar gátu Danir hert tök
sín á Íslandi að nýju sökum þess hve sáttfúsir Bretar voru við þá enda búnir
að fara illa með þá, [...] en eftir því sem leið á öldina, þá nítjándu, jókst
krafan um frjálsa verslun og gekk að lokum eftir“ (214), segir sögumaður, en
hann lýsir líka nákvæmlega hvernig hin verklega skynsemi (e. instrumental rea-
son) leysti upplýsingaskynsemi af hólmi62 – ef upplýsingarhugsjónir gátu ekki
stuðlað að efnahagslegri þróun eða verið gagnleg verkfæri kapítalismans
urðu þær þýðingarlausar.
Í sögum séra Jóns er hugtakið réttlæti sett á oddinn. Hann rauf innsigli
landstjórans í peningatökumálinu svokallaða sem tengdist Skaftáreldunum63
og dreifði styrk frá danska kónginum til þeirra „sem þurftu á honum að
halda í stað þess að fara með hann innsiglaðan í kistli sínum til Lýðs Guð-
mundssonar sýslumanns svo hann gæti virt hann fyrir sér, handleikið hann
og velt vöngum yfir því hvað hann ætlaði að gera við peningana sem í kistl-
inum voru“ (222). Hann þóttist vera að koma réttlæti í framkvæmd en mál-
inu lauk með því að hann þurfti að borga sekt. Það sem Finnur Magnússon
sóttist eftir – þekkingin – varð honum líka að falli. Hann hélt að rétt væri að
lesa rúnir í Blekinge sem hann hafði verið að rannsaka frá hægri til vinstri,
og hélt mikið upp á þessa glæsilegu uppgötvun sína og stærsta daginn í lífi
sínu sem fræðimanns, en allt reyndist vera sjónhverfing. Sögupersónurnar
Jörgen, séra Jón og Finnur voru sannarlega í takti við þann tíma sem þær
hrærðust í, en að vissu leyti voru þær einnig strengjabrúður og jafnvel fórn-
arlömb tíðarandans. Frá þessum sjónarhóli fá allar aðalpersónurnar í Hunda-
dögum hlutverk utan stórsögunnar og fara úr skorðum hennar, svo ekki dugi
að túlka ævi þeirra eingöngu út frá leiðarfrásögn upplýsingarinnar. Þannig er
62 Sbr. Max Horkheimer og Theodor W. Adorno, Dialectic of Enlightenment: Philosop-
hical Fragments, þýð. Edmund Jephcott, Stanford: Stanford University Press, 2002
[1944, 1947 á þýsku].
63 Séra Jón tók „fé úr hjálparsjóði án heimildar vegna Skaftáreldanna“, sjá Matthías V.
Sæmundsson, „Upplýsingaröld 1750–1840“, bls. 125.