Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 115
BjöRN ÞóR VilHjálMSSoN
114
síðarnefndi greinargerð með tillögu um úrlausn til sakadóms Kópavogs.
Frétt um þessar síðustu vendingar málsins birtist 25. febrúar og unnin er
fyrirsögn úr tillögu saksóknara: „iSViDEo boðin dómssátt?“.100 Kemur
fram að það sé skoðun saksóknaraembættisins að sýningar og dreifing á
Cannibal Holocaust varði við 210. grein almennra hegningarlaga, sem bannar
dreifingu á klámi, og að aðstandendum vídeóleigunnar ætti að vera boðin
dómssátt, en í henni myndi felast fjársekt og að „spóluskömmin“ yrði gerð
upptæk. Það sem hér blasir við er að myndbönd reyndu á dómskerfið á máta
sem kvikmyndasýningar gerðu ekki. Ekki var í boði að stilla upp forsýningu
og komast svo að niðurstöðu á óformlegum fundi hlutaðeigandi aðila, með
lögreglusamþykkt Reykjavíkur í bakgrunninum til að skapa þrýsting. Í fjar-
veru slíkrar „málamiðlunar“ var fátt um lagaleg úrræði, líkt og niðurstaða
ríkissaksóknara um að beita skuli klámlöggjöfinni frá 1940 gefur í skyn.101 Þá
var dómssátt lausnamiðuð málamiðlun sem lengi hafði tíðkast í dómsmálum
um klám. Enda þótt sakfellingum hafi oftast verið náð fram í kærumálum
um klám er ýmislegt sem gefur til kynna að saksóknaraembætti hafi almennt
ekki verið sérstaklega áfram um að sækja slík mál, og dómssátt var því nær
undantekningarlaust í boði.102 En burtséð frá því þá var auðvitað vafasamt að
nota klámlöggjöfina til að koma böndum yfir Cannibal Holocaust.
Frá 11. janúar til febrúarloka birti Þjóðviljinn á annan tug greina sem
allar gerðu Cannibal Holocaust að viðfangsefni með einum hætti eða öðrum.
Þá endurtók og ítrekaði blaðið flökkusöguna um að Deodato hafi meðan á
framleiðslu stóð orðið lunganum af aðalleikurunum í mynd sinni að aldur-
tila, að viðbættum nokkrum aukaleikurum, og setur fram sem óhrekjanlega
staðfestingu á ógninni sem íslenskri æsku (og menningunni) stafar af „víd-
eófárinu“. Fyrir þessu kunna að vera ýmsar ástæður, en fram hjá því verður
hins vegar ekki litið að á sama tíma og Þjóðviljinn gangsetti herferð sína gegn
óværunni á myndbandaleigunum var frumvarp um bann á ofbeldismyndum
í farvatninu á Alþingi. Heyrst höfðu raddir sem gagnrýndu seinaganginn
við afgreiðslu frumvarpsins og Þjóðviljinn var eindreginn stuðningsmaður
þess. „Fjölmiðlaherferðin“ sem blaðið réðst í á fyrstu tveimur mánuðum
100 „hól“, „iSViDEo boðin dómssátt?“, Þjóðviljinn, 25. febrúar 1983, bls. 11.
101 Hér mætti benda á að þróunin hvað þetta varðar er keimlík þeirri í Bretlandi, þar
sem einnig var reynt að nota klámlöggjöfina, „obscene Publications Act“, gegn of-
beldismyndum áður en sérstök lög voru sett um myndböndin. Sjá um þetta john
Martin, Seduction of the Gullible, london: Stray Cat Publishing, 2007, og Kristín
Svava Tómasdóttir, Stund klámsins, bls. 255.
102 Sjá hér umfjöllun Kristínar Svövu Tómasdóttur um rekstur sakamála á hendur að-
ilum er kærðir voru fyrir brot á klámlöggjöfinni, Stund klámsins, bls. 155–269.