Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 259
XINYU ZHANG
258
gerður að tengiliðarpersónu séra Jóns og Jörgens í lok skáldsögunnar (sbr.
340–341) auk þess sem ævi og fræðistörf hans eru einnig rakin. Hundadaga-
drottningin Guðrún Einarsdóttir Johnsen (1790 –1860) er líka þess háttar
persóna; lesandinn kynnist ævi hennar en hún tengir jafnframt saman sögur
af Jörgen og Finni (sbr. 337–341). Síðast en ekki síst er sögumaður í Hunda-
dögum býsna fyrirferðarmikill og gegnir reyndar bæði hlutverki sögumanns
og sögupersónu37 eins og sýnt verður hér á eftir; hann hefur sögulega yfirsýn
og næmt auga fyrir samtímanum – meðal annars hruninu 2008 og stöðu Ís-
lands í heiminum.
Byrjað skal á því að kanna sögumanninn í Hundadögum, sem einkennist
af sterkri sjálfsvitund og fer ekki í launkofa með sköpunarferli sitt, rétt eins
og venjan er með sögumenn í sjálfsögum.38 Hann segir til að byrja með frá í
fyrstu persónu fleirtölu, „við“, eins og sjá má í eftirfarandi dæmum úr fyrsta
kaflanum í fyrsta hluta skáldsögunnar:
Við köllum hann Jörund hundadagakonung enda er hann á sinn
hátt eini kóngurinn sem við höfum átt. (9)
Þetta sést best á því að við munum varla hvað hinir raunverulegu
kóngar hétu og því síður drottningar þeirra, nema þær allra kræf-
ustu. [...] Að öðru leyti vorum við lítið að spá í þetta fólk. [...] Í
stuttu máli sagt, við höfum ekki mikið af þessum kóngum að segja.
(10)
37 Ýmsir ritdómarar hafa fjallað um hinn fyrirferðarmikla sögumann Hundadaga, sjá
t.d. Ásdís Sigmundsdóttir, „Brúarsmiður eða farartálmi“ og Steinunn Inga Óttars-
dóttir, „Napóleón norðursins: Um Íslands eina kóng“, Kvennablaðið.is, 15. nóvember
2015, sótt 17. febrúar 2019 af https://kvennabladid.is/2015/11/15/napoleon-nor-
dursins-um-islands-eina-kong/. Ásdís vill jafnvel meina að sögumaður sé „aðalper-
sóna bókarinnar en ekki Jörundur eða aðrar persónur“.
38 Jón Karl Helgason bendir á að í alþjóðlegri umræðu séu til tvenns konar hugtök
sem hefjst á meta- eða self-, en þau ganga að vissu leyti aftur á íslensku: „Þekktustu
hugtökin í fyrri hópnum eru meta-bókmennntir (fr. méta-littérature) [...] og metaskáld-
skapur (e. metafiction) [...]. Í síðarnefnda flokknum eru meðal annars hugtökin sjálfs-
meðvituð skáldsaga (e. self-conscious novel) [...] og sjálfhverf frásögn (e. narcissistic narra-
tive)“, sjá „Deiligaldur Elíasar“, bls. 102–104. Meta-bókmenntir og metaskáldskapur
eru nefnilega bókmenntir um bókmenntir, í þeim er að finna yfirvegun og umfjöllun
bókmennta um tilveru sína, en eins og fram hefur komið í nmgr. 27 hafa sjálfsmeðvit-
aðar skáldsögur og sjálfhverfar frásagnir einnig verið kallaðar metafiction (sbr. Waugh
og Hutcheon), enda eiga þær og meta-bókmenntir það sameiginlegt að einkennast af
sjálfsvitund um sköpunarferli skáldsögunnar, hvort sem skáldskapareðli hennar (e.
fictionality) er gert sýnilegt eða ekki.