Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 40
LjÓS Í MYRKRI
39
kynhvöt og kynhneigð sína. Þannig hefur sjónarhorn íslenskra kvikmynda
hvað varðar kynferði, kynþátt og kynhneigð breyst talsvert á síðustu árum.
Að endingu er vert að geta mikilvægrar nýjungar í íslenskri kvikmynda-
gerð samtímans. Í stuttu máli má greina í þremur myndum áratugarins
að íslensk kvikmyndagerð sé loksins að eignast eigin hefð; að kvikmynda-
gerðarmenn sæki í og vinni úr eigin sögu fremur en að leita viðmiða alfarið
út fyrir landsteinana. Líkt og rætt var hér að framan var Friðrik Þór Frið-
riksson í fararbroddi þeirra leikstjóra sem leituðu fyrirmynda til evrópsku
listamyndarinnar, en í Mömmu Gógó fjallar hann um eigin kvikmyndagerð
og ekki síst Börn náttúrunnar. Slík naflaskoðun leikstjóra segir kannski ekki
mikið ein og sér en þegar tveir hæfileikaríkir leikstjórar vinna náið úr sömu
kvikmynd með afar ólíkum hætti telst það til tíðinda í íslenskri kvikmynda-
gerð. Í Eldfjalli (Rúnar Rúnarsson, 2011) eru þemu og fagurfræði Barna
náttúrunnar endurvakin í raunsæisdrama á meðan í Á annan veg (Hafsteinn
G. Sigurðsson, 2011) er þeim umbreytt á gamansaman hátt.40 Myndirnar
staðfesta einnig nokkuð sterka stöðu listrænu hátíðarmyndarinnar í íslenskri
kvikmyndagerð, þótt hún geti átt erfitt uppdráttar í miðasölu hérlendis.
Markverð í þessu samhengi þó er velgengni Fúsa (2015) eftir Dag Kára,
Hrúta (2015) Gríms Hákonarsonar, Hjartasteins Guðmundar Arnars, Undir
trénu (2017) í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar auk mynda Bene-
dikts Erlingssonar Hross í oss (2013) og Kona fer í stríð (2018) á erlendum
kvikmyndahátíðum samfara nokkuð góðri aðsókn í íslenskum kvikmynda-
húsum.41 Það er við hæfi að enda þessa yfirferð á orðum sem Benedikt lét
falla eftir að mynd hans Hross í oss vann til verðlauna á kvikmyndahátíðinni
í San Sebastian á Spáni: „Lögmálið er að því meira lókal sem maður er, því
meira glóbal. Og það virkar.“42 Ekki skal fullyrt að Benedikt hafi hér fundið
hina fullkomnu formúlu, en velgengni þessara mynda gefa til kynna að þau
átök hins þjóðlega og alþjóðlega sem hafa mótað íslenska kvikmyndagerð á
aðra öld geti verið skapandi ekki síður en hamlandi.
40 Ég greini þessar myndir og tengsl þeirra við Börn náttúrunnar ítarlega í bókarkafl-
anum „The Emergence of a Tradition in Icelandic Cinema: From Children of Nature
to Volcano“, A Companion to Nordic Cinema, ritstj. Mette Hjort og Ursula Lindquist,
new York: Wiley-Blackwell, 2016, bls. 529-546.
41 Eftir langa eyðimerkurgöngu féllu kvikmyndaverðlaun norðurlandaráðs Íslend-
ingum í skaut þrisvar á fimm árum; Dagur Kári fyrir Fúsa á milli beggja mynda
Benedikts (til samanburðar hafa norðmenn einungis unnið verðlaunin einu sinni og
Finnar tvisvar). Þá vann Fúsi einnig aðalverðlaunin á Tribeca hátíðinni í new York
og Hrútar Un Certain Regard verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
42 „Verðlaunin styrkja stöðu Benedikts“, RÚV, 29. september 2013, sótt 30. apríl 2019
af http://www.ruv.is/frett/verdlaunin-styrkja-stodu-benedikts.