Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 263
XINYU ZHANG
262
sögumanns. Hér má einnig minnast á tvö helstu einkenni sagnritunarsjálf-
sagna, þ.e. margföld sjónarhorn á sögu og sögumann sem stýrir frásögn á
afar opinskáan hátt og setur þannig huglægan skilning sinn á sögu í for-
grunn.47
Á bak við „við“-sögumannsröddina er þá „ég“-sögumaður sem breytir
um fornafn og þar með tilvísun. „Við“-frásagnir eru einskonar orðræðuað-
ferð48 sem „ég“-sögumaður beitir til að vekja tilfinningar og geðshræringar
hjá lesendum; sögumaðurinn verður þar með blendingur af sögumanni og
áheyranda eða lesanda (við = ég + aðrir). Þó að lesendahópurinn sé víðar en á
Íslandi, vísar „við“ í fyrrnefndum dæmum í rauninni einungis til sögumanns-
ins og annarra Íslendinga,49 og hann notar „við“ til að ávarpa þá, flækja þá
inn í frásögnina, vekja athygli þeirra á frásögninni og tengja þá jafnframt við
þann sögulega tíma sem skáldsagan lýsir.
Frásögnin er ýmist í þátíð eða nútíð; sögutíminn er stundum tíðin þegar
Jörundur og aðrir kóngar voru uppi, stundum sá nútími sem við lifum í.
Einn ritdómari Hundadaga segir um þetta atriði: „Höfundur talar nefnilega
um okkur; okkur sem lifum núna og okkur sem lifðum þá. Við erum til á
tvennum tímum.“50 Í nútíðarfrásögnum eru lesendur samferða sögumanni
sem grefur upp sögur af Jörgen, séra Jóni, Finni og fleiri og segir frá þeim,
en í þátíðarfrásögnum eru þeir beinlínis gerðir þátttakendur í Íslands- og
mannkynssögunni eins og sögumaðurinn sjálfur, sem er orðið ljóst í eftir-
farandi dæmi: „Kannski brugðumst við líka kónginum, verndara vorum og
hæstráðanda til sjós og lands. [...] Kom okkur þetta brambolt eitthvað við?
Hvenær höfðum við verið spurð: Styður þú byltinguna? Nei, við höfðum
ekki verið spurð að neinu í svo margar aldir að við skildum ekki spurning-
una“ (213). Með því að tala um „okkur“ í þátíð, tengir sögumaðurinn sjálfan
sig og lesendur við byltingu Jörgens – „við“ verðum með öðrum orðum Ís-
47 Linda Hutcheon, A Poetics of Postmodernism, bls. 117.
48 Munur er gerður á „við“-frásagnarorðræðu og „við“-frásagnarathöfn – hið fyrr-
nefnda vísar til þeirra frásagna þar sem fyrstu-persónu-eintölu-sögumaður situr við
stýri á bak við fyrstu-persónu-fleirtölu-fornafnið, en hið síðarnefnda vísar til frá-
sagna þar sem merki „ég“-sögumannsins er hvergi að finna og „við“-sögumaður sem
einkennist af samhuglægni stýrir frásögninni. Sjá Natalya Bekhta, „We-Narratives:
The Distinctiveness of Collective Narration“, Narrative 2/2017, bls. 164–181, hér
bls. 168–172. Í grein Bekhtu má líka lesa um helstu frásagnarfræðilegar rannsóknir
um „við“-frásagnir.
49 Í tilviki erlendra lesenda gerir sögumaður ráð fyrir að þeir setji sig í spor Íslendinga.
50 Ingvi Þór Kormáksson, „Í heimsreisu með Jörundi“, Bókmenntaborgin.is, 2015, sótt
17. febrúar 2019 af http://bokmenntaborgin.is/umfjollun/hundadagar.