Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 49
GuNNAR TómAS KRiSTóFERSSoN
48
hreyfanleg mynd.17 En skuggamyndir fyrir töfralampa voru sumar þannig
gerðar að hægt var að snúa, lyfta eða skrúfa á jaðri myndskyggnunnar sem
gerði það að verkum að myndin leit út fyrir að hreyfast á tjaldinu. Ekki var
um að ræða flóknar hreyfingar, en þó þóttu mörgum þær tilkomumiklar.
Flestar voru hreyfimyndirnar þá málaðar og ekki ljósmyndir. Af auglýsing-
unni að dæma var Þorlákur búinn að setja saman nokkuð viðamikla dag-
skrá, en ásamt Evrópureisu á tjaldinu, hreyfimynd og sérstakri barna- og
skemmtidagskrá bauð hann upp á söngflokk bæði kvöldin sem átti að flytja
,,concert“ fyrir áhorfendur.18 árið 1892 hætti Þorlákur sýningunum vegna
heilsubrests sem hann þjáðist af til dauðadags árið 1917. Þrátt fyrir tilkomu
kvikmyndatækninnar lifðu skuggamyndir góðu lífi langt fram á 20. öldina,
bæði við fyrirlestrahald og aðra fræðslu og til skemmtunar eins og fjölda-
margar auglýsingar og umfjöllun blaðanna eru til vitnis um.
Fjölmiðlar komast á bragðið
Við upphaf umfjöllunar um kvikmyndatæknina í íslenskum fjölmiðlum
beindist athyglin að yfirlýsingum Thomas Alva Edisons um nýja uppfinn-
ingu sem gæti sýnt hreyfimyndir. Þann 13. júní 1891 fjallaði Ísafold um upp-
finningu Edisons en þar var tækinu lýst á eftirfarandi máta:
Edison hefir nú búið til nýja töfravjel, fyrir augu og eyru, sem kem-
ur á Chicago-sýninguna. Hún flytur manni heim í herbergi sitt frá
fjarlægum leikhúsum sjónarleiki, orð og tóna, myndir og hreifingar
og svipaskipti þeirra manna, sem þar leika. - og annað eptir því.19
uppfinningin átti að geta tekið upp bæði hljóð og mynd og endurflutt hvar
sem er aftur fyrir áhorfendur. Þótti blaðamanni Austra svo mikið til upp-
finningarinnar koma að hann lagði til að Íslendingar mynduðu samtök um
kaup á slíkri vél og þannig mætti taka upp í söng- og leikhúsum Stokkhólms,
Kaupmannahafnar eða Kristíaníu og halda svo sýningar á heimsmenning-
unni á Íslandi.20 Hljóðlaus útgáfa uppfinningarinnar var frumsýnd árið 1893,
meðal annars á heimssýningunni í Chicago, sem minnst er á í tilvitnuninni
hér að ofan, en sú vél nefndist Kinetoscope og varð brátt gríðarlega vinsæl
nýjung. Ekki virðist hafa tekist að kaupa vél Edisons til landsins og í raun
17 Ísafold, 16. 11. 1889, bls. 368.
18 Sama rit, bls. 368.
19 ,,Bandaríkin í Norður-Ameríku“, Ísafold, 13. 06. 1891, bls. 186-187, hér bls. 187.
20 Austri, 20. 12. 1891, bls. 54.