Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 267
XINYU ZHANG
266
í ljósi þess hve athyglisverð saga Jörgens sé.59 Höfundurinn lýsir sjálfur
tengslunum svo í viðtali við Skapta Hallgrímsson:
Þegar þú ert með þá tvo, Jörund og Jón, og Finn Magnússon að
auki, er hægt að búa til ákveðnar tengingar. [...] Maður hefur heyrt
sögur um þessa menn, hvern í sínu lagi, en þegar maður hugsar
þetta í samhengi kemur í ljós að Jörgen er þriggja ára þegar Skaft-
áreldar hefjast og ekki líða nema tæp þrjátíu þar þangað til hann
kemur hingað. Þetta er stuttur tími í sögunni en ofboðslega mikið
að gerast þarna á milli; franska byltingin og Napóleonsstyrjald-
irnar, nýlendustefnan, öll þessi verslun og viðskipti og styrjaldir.
Og það er alveg makalaust hvernig þetta tengist í gegnum einn
mann eins og Sir Joseph Banks sem er bæði í því að „uppgötva“
Ástralíu með James Cook og kemur svo hingað og hittir séra Jón
Steingrímsson.60
Í öðru viðtali, spurður um tengsl persónanna þriggja, kemst Einar Már
einkar skemmtilega að orði: „Þeir bara mættu í söguna, eins og krakkar í
skóla“,61 en hann talar líka um hinn andlega eða huglæga þátt sem bindur þá
saman. Þessar sögulegu persónur virðast þannig ekki tengjast eingöngu á
landfræðilegu korti, heldur líka á hinu hugmyndafræðilega korti. En í hverju er
þessi huglægi þáttur fólginn?
Þegar séra Jón Steingrímsson skrifaði ævisögu sína árið 1784–1791 var
upplýsingaöldin gengin í garð á Íslandi, en franska byltingin í nafni frelsis,
jafnréttis og bræðralags gaus upp árið 1789. Nýlenduhyggjan varð til í kjölfar
upplýsingarinnar, en stórríkin teygðu sig til „heimsendanna“ Ástralíu, Tas-
maníu og Íslands. Skipin sigldu um höfin og færðu varning milli hafna, en
það voru líka styrjaldir, svo að „[ö]ll verslun var í skötulíki“ (134). Þess vegna
má segja að tíðarandinn – Zeitgeist – í Hundadögum sé upplýsingin, en hún
leiðir þó fyrst og fremst í ljós óvissu og óreiðu.
Jörgen var hrifinn af hugmyndum um frelsi, en líf hans valt á tilviljunum
og ringulreið – hann ætlaði að verða sjómaður en hann varð hermaður,
59 Sjá t.d. Ingvi Þór Kormáksson, „Í heimsreisu með Jörundi“ og Þórdís Edda Jó-
hannesdóttir, „Saga um sögur“, Hugrás.is, 2015, sótt 22. febrúar 2019 af http://hug-
ras.is/2015/11/saga-um-sogur/.
60 Skapti Hallgrímsson, „Erum alltaf stödd í einhverri sögu“, Morgunblaðið sunnudagur
13. desember 2015, bls. 54–55, hér bls. 54.
61 Viðtal við Einar Má í þættinum Bók vikunnar á Rás 1, 29. maí 2016, Rúv.is, sótt 22.
febrúar 2019 af http://www.ruv.is/frett/hundadagar-einar-mar-gudmundsson.